sunnudagur, júlí 18, 2010

Fallnir og slasaðir við virkjanaframkvæmdir

Rúmlega 1700 vinnuslys hafa orðið við Kárahnjúkavirkjun.

Í frétt Ríkisútvarpsins segir að
Á annað hundrað eru enn óvinnufærir eftir að hafa orðið fyrir vinnuslysi við Kárahnjúka. Rúmlega 1700 vinnuslys voru tilkynnt á svæðinu frá því framkvæmdir hófust við virkjunina árið 2002, þar til í fyrra. Flestir þeirra sem slösuðust unnu hjá verktakafyrirtækinu Impregilo eða rúmlega 86 %.
Tæpur fimmtungur þeirra sem slösuðust voru meðal yngstu starfsmannanna en flestir eða 37 %, voru á aldrinum 30 til 39 ára. 27 % slasaðra voru 40 til 49 ára. 10 þeirra sem slösuðust urðu fyrir óbætanlegu líkamstjóni, 122 beinbrotnuðu, 49 urðu fyrir eitrun og 35 brenndust, en fjórir létu lífið.


Tveir hafa líka dáið við gerð Hellisheiðarvirkjanarinnar auk þess sem nokkrir hafa slasast. Þeir sem dóu voru útlendingar, eins og tveir þeirra sem fórnuðu lífinu við Kárahnjúka.

Fjöldi vinnuslysa hafa einnig orðið við álverið og járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga.

Mörgum þeirra sem þykja virkjanir og álver helsta lausn allra vandamála þykir þetta líklega óþarfa fréttir, enda yfirleitt útlendingar að slasast og deyja. Verði fleiri virkjanir reistar þá verður nú líklega samið við fínu Kínverjana sem voru hér að hitta Landsvirkjana og þeir munu auðvitað gera það að skilyrði að fá að senda hingað Kínverja aftur, eins og við Kárahnjúka. Ekki gengur að ráða innlent vinnuafl sem er allt meira og minna í verkalýðsfélögum sem heimta að farið sé að lögum um vinnutíma, öryggisbúnað og gott ef ekki lágmarkslaun. Slíkt er hægt að sniðganga með því að ráða erlent vinnuafl, eins og gert hefur verið hingað til.

Reyndar vilja virkjunarsinnar nú að Íslendingar fái vinnu við þessar virkjanir og álver enda muni það leysa allt atvinnuleysi.* Spurning hvort fólki verði gert að afsala sér öllum réttindum taki það slíka vinnu.

Voða er annars súrt að Ríkisútvarpið sé að draga upp svona leiðinlegar tölur um mannfall og slysfarir þegar svona fín uppgripavinna er í uppsiglingu.

___
* Umþaðbil 13.000 manns eru atvinnulaus og eru auðvitað æst í að vinna í álveri og geta unnið slíka vinnu og þá næg vinna fyrir allan þann fjölda.

Efnisorð: , ,