laugardagur, júlí 10, 2010

Danir eru bara kéllingar

Alþjóðleg vinnumiðlun lét gera rannsókn í 25 löndum og leiddi hún í ljós að Danir hafa miklu minni áhuga á því að komast í stjórnunarstöðu en fólk í öðrum löndum.* Í Noregi og Svíþjóð hafði fólk litlu meiri áhuga á stöðuhækkunum. Norðurlandabúar, samkvæmt þessu, eru því nokkuð sammála um að stjórnunarstörf séu ekki eftirsóknarverð.

Fulltrúar vinnumiðlunarinnar segja að Norðurlandabúar hafi ekki eins mikla þörf fyrir stöðuhækkun og fólk í löndum þar sem laun eru lægri, atvinnuleysi meira og velferðarkerfið lélegra.

Mín kenning er afturámóti sú að fólk í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hafi áttað sig á því að tími með fjölskyldu og vinum, heilsufar og lífsgæði almennt séu best tryggð með því að vinna hóflega langan vinnudag og hafa ekki áhyggjur af starfinu utan vinnutíma. Flestum öðrum þykja þessar þjóðir einmitt afslappaðar og tiltölulega glaðar — auk þess sem það sé auðvitað mikil lífsgæði að búa við traust velferðarkerfi og heilbrigðisþjónustu.

Konum hefur oft verið legið á hálsi fyrir einmitt þetta: að setja einkalíf sitt (fjölskyldu/vini) og heilsufar (tími fyrir andlega og líkamlega heilsurækt) ofar á lista yfir eftirsóknarverð gæði heldur en vinnuna. En sæki þær ekki um stjórnunarstöður er það túlkað sem svo að konur séu ekki til stjórnunarstarfa fallnar eða þori ekki. En rétt eins og það eru auðvitað til Danir sem kæra sig alveg um að verða stjórnendur, þá er fjöldi kvenna sem vill alveg leggja þau leiðindi á sig.** Þær sem þó sækja um eru litnar hornauga og svo fá þær auðvitað síður toppstöðurnar. En auðvitað ættu þær konur sem vilja stöðuhækkun eða stjórnunarstarf að vera álitnar jafn góðar til að gegna stjórnunarstöðum eins og karlmennirnir sem sækja um. En þar er mikill misbrestur á; karlmenn fá frekar skólastjórastarf, framkvæmdastjórastarf, forstjórastarf, bankastjórastarf, biskupsembætti ... og svo mætti lengi telja.

Konur — eins og Danir— geta alveg og vilja alveg verða stjórnendur. Þær sem það vilja ekki eru auðvitað svo alveg ágætar eins og þær eru, rétt eins og Danir.

___
* 68% Dana höfðu engan áhuga á að verða stjórnendur, segir í Fréttablaðinu sem er nú aftur farið að berast heim í hús, alveg óumbeðið.
** Gagnstætt Borg illmennunum í sjónvarpsþættinum Star Trek sem allir hafa sameiginlega vitund, þá eru konur ekki allar eins, né hugsa þær allar eins. Ágæt vinkona mín orðar það svona: „Konur eru ekki Borgverjar.“

Efnisorð: