miðvikudagur, júní 23, 2010

Rétturinn til að drepa allt kvikt

Mér þykja skotveiðar hörmulegt sport. Látum vera að menn veiði sér til matar en að kalla það sport eða skemmtun sýnir undarlegt innræti. Skotveiðimenn virðast reyndar fæstir vera að skjóta sér í matinn heldur er aðalmálið að drepa og það helst sem mest. Jafnvel þó dýrin sem skotið er á drepist ekki strax þá þykir feikna fjör að sjá þau falla eða vita að þau eru slösuð. Það hefur eitthvað með karlmennskuna að gera, ég er líklega of mikil kvenremba til að skilja svoleiðis.

Nýlega var í fréttum að skotveiðimenn hafi gert sér það til skemmtunar að drepa haferni og fálka — sært þá marga til ólífis en eflaust líka marga hirt til þess að eiga þá (eða selja) uppstoppaða. Til að sýna fram á karlmennskuna sko.* Nú eru skotveiðimenn búnir að senda frá sér yfirlýsingu vegna þess að til stendur að takmarka veiðar innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Þeir eru æfir, sama má segja um jeppakarla sem splæstu í átta síðna blað sem dreift var með Fréttablaðinu*** og innihélt eingöngu áróður fyrir því að þeir megi spæna utanvegar og upp um allar trissur með hávaða og látum innan þjóðgarðsins.

Skotveiðimenn eru einmitt gjarnan jeppakallar líka; enda gott að geta elt bráðina á upphituðum bíl. Virðing fyrir náttúru (sem jeppakallar láta sem sé aðalástæða þess að þeir þurfi nauðsynlega að juðast yfir ófærur) er í raun engin, síst þegar skotveiðimenn eiga í hlut. Aðalmálið er að sýna yfirráðin yfir náttúrunni — en karlmenn virðast fastir í þeirri bókstafstrú á Biblíuna að þeir séu yfir náttúruna og dýrin hafin; náttúran eigi að vera þeim undirgefin og þeir drottni yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni. Mikil er trú þeirra.

___
* Ég hef áður skrifað að karlmönnum þætti örugglega bara fjör að veiða tígrisdýr í útrýmingarhættu — en hafernir og fálkar eru einmitt líka alfriðaðir.
** Í athugasemd við frétt um yfirlýsingu skotveiðimanna segir Stefán Benediktsson, fyrrverandi þjóðgarðsvörður í Skaftafelli: „Þjóðin er yfir þrjúhundruð þúsund einstaklingar og skotveiðimenn líklega innan við 1% af þeim hópi. Sú staðreynd gefur orðinu Þjóðgarður skiljanlega merkingu. Skotveiðigarður gæfi svæðinu allt annað gildi.“
*** Þeir eru greinilega ekki blankir og verður ekki mikið hægt að taka mark á þegar þeir jarma næst um hve eldsneyti sé dýrt; nema þeir hafi tekið út gróðann á myntkörfulánsbreytingunni fyrirfram. Myntkörfulánsdómur Hæstaréttar virkar reyndar á mig eins og uppfylling á kosningaloforði Besta listans: Allskonar fyrir aumingja.

Efnisorð: , , ,