laugardagur, júní 05, 2010

Lítil saga um stríð og dóp

Nýlega lést í Bandaríkjunum svili minn eftir langa sjúkralegu. Hann var borinn og barnfæddur Bandaríkjamaður og bjó í New York. Hann var sendur til Víetnam þar sem hann ánetjaðist fíkniefnum og þegar heim var komið var hann orðinn forfallinn fíkill.* Dag einn keypti hann sér eiturlyfjaskammt sem reyndist ekki vera heróín eins og til stóð heldur rottueitur.** Hann fékk áköf uppköst, ælan fór ofan í lungu og hann féll í dá og var útúr heiminum í heilt ár. Læknarnir bjuggust reyndar ekki við að hann myndi nokkurntímann vakna og því fékk hann enga sjúkraþjálfun meðan hann var í dáinu. Þegar hann vaknaði höfðu útlimir hans kreppst svo að handleggirnir voru eins og kjúklingavængir uppvið brjóstkassann. Fótleggina þurfti að fjarlægja. Að auki var hann lamaður. Svona lá hann í sjúkrarúmi í ríkisspítala í hátt í fjóra áratugi.*** Hann margbað fjölskyldu sína um hjálp við að deyja, ekkert þráði hann fremur. Loks dó hann svo úr lungnabólgu og var jarðsunginn í síðustu viku, þrjátíu og fimm árum eftir að Víetnamstríðinu lauk.

Þetta var lítil saga um stríð og dóp. Hún byrjaði ekki vel og hún endaði ekki vel, frekar en stríð og eiturlyfjaneysla yfirleitt.
___
* Dópneysla virðst hreinlega hafa verið fyrirskipuð í Víetnam eins og víðar. Lengi hafði þekkst að gefa hermönnum amfetamín til að þeir héldust vakandi lengur — frægt er að Elvis Presley varð háður því þegar hann gegndi herþjónustu í Þýskalandi. Árið 1971 var talið að 15% bandarískra hermanna í Víetnam væru háðir heróíni.
** Ekki eru dópsalar í bíómyndum svona.
*** Fjölskylda hans vill meina að hann hefði átt að vera á spítala fyrir uppgjafahermenn þar sem hann hefði fengið betri umönnun en þangað inn komst hann ekki.

Efnisorð: , ,