laugardagur, maí 29, 2010

Í dag mun ég kjósa

Frá því að ég fékk aldur til að kjósa hef ég alltaf hugsað mig vel um hvaða flokkur fengi atkvæði mitt. Alltaf hafa það þó verið vinstri sinnaðir flokkar sem hafa höfðað til mín og valið hefur því staðið milli Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Kvennalista og síðar Samfylkingar og Vinstri grænna. Í borgarmálum var þetta einfaldara um skeið: þá kom R-listinn einn til greina enda þótt mér væri nánast flökurt að greiða þannig Framsóknarflokknum atkvæði mitt. Til þess að gera upp hug minn las ég stefnuskrár en rifjaði jafnframt upp eftir bestu getu (en kjósendur og ég þarmeðtalin hafa eins og kunnugt er lélegt minni) hvernig þessir flokkar hefðu staðið sig og við stefnumál sín síðasta kjörtímabil.

Listarnir sem bjóða fram í Reykjavík eru Besti flokkurinn, Framboð um heiðarleika og almannaheill, Framsóknarflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn, Reykjavíkurframboðið, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri hreyfingin grænt framboð.

Besti flokkurinn — listabókstafur Æ. Hér er ekki hægt að meta fyrri störf í sveitarstjórn en þá verður að líta til ferils oddvitans og annarra sem á listanum eru. Ég hef áður líst frati á þetta framboð enda virðist það tengjast frjálshyggju en aðallega finnst mér fáránlegt af kjósendum að henda atkvæði sínu í eitthvað svona bull því það er engin stefna sett fram og því engin leið að vita hvað Jón Gnarr og félagar hans mun gera á einstökum nefndarfundum annað en láta sér leiðast fundirnir sjálfir. Aldrei myndi ég ráða mann í vinnu sem lýsti frati á starfsvettvanginn, hefði óþol gagnvart því sem gera á í vinnunni (sitja fundi) og talaði um tilvonandi samstarfsfólk sitt sem leiðinlegt.

Framboð um heiðarleika og almannaheill — listabókstafur H. Ólafur F. Magnússon vill að Reykjavíkurflugvöllur verði kyrr um aldur og ævi. Það eitt er nóg til að ég myndi ekki kjósa hann. En svo er það allt hitt ...

Framsóknarflokkurinn — listabókstafur B. Ef það verður eitthvað tilefni til að fagna eftir þessar kosningar þá verður það vegna þess að Framsóknarflokkurinn hafi þurrkast út í Reykjavík. Einar er kannski ágætis strákur og það er kannski enginn að meina Einar þegar hann hugsar um spillingarmökkinn sem liggur yfir flokknum, enda þótt Björn Ingi Hrafnsson hafi hlaupið í felur, en Framsókn er bara svo gerspillt og hefur verið það svo lengi að það er langbest að hún leggi upp laupana fyrir fullt og allt, á landsvísu líka.

Frjálslyndi flokkurinn — listabókstafur F. Stefna flokksins er svosem ekkert vond, fyrir utan að þau styðja heimgreiðslur til foreldra og þau vilja halda flugvellinum. Frítt í strætó fyrir alla er auðvitað nauðsynjamál en mun eitt og sér ekki yfirskyggja fortíð og hægri slagsíðu flokksins í mínum huga.

Reykjavíkurframboðið — listabókstafur E. Annar maður á lista er formaður og einn stofnenda Norræna íhaldsflokksins.* Þriðji maður á lista hefur oft og mikið bloggað gegn feministum** en það er einmitt merkileg „tilviljun“ að á lista Reykjavíkurframboðsins eru karlar í fyrstu þremur sætunum. En burtséð frá þessum afar óaðlaðandi frambjóðendum (dýralæknirinn hefði mátt vera ofar en í 12. sæti) þá er stefnan þeirra pínulítið galin. Hún gengur útfrá því sem gefnu að hægt sé að veðsetja óselt byggingarland í Vatnsmýrinni og því verði til nógir peningar til að gera hitt og þetta í borginni. Í fyrsta lagi þá er furðulegt að tala um að taka lán fyrir rekstri borgarinnar sem útgangspunkt í fjármálarekstri hennar. Í öðru lagi þá verður ekkert byggt í Reykjavík næstu árin eða áratugina; það vantar ekki húsnæði heldur er offramboð af því bæði hér og í nærliggjandi sveitarfélögum. Svo byrjar maður ekki að tala um að eyða peningum sem á eftir að fá að láni út á eign sem á eftir að vita hvort einhver vill lána útá ... Þetta er grundvöllur allra rekstraráætlana og stefnu Reykjavíkurframboðsins. Fyrr má nú telja eggin áður en þau eru komin í körfuna.

Samfylkingin — listabókstafur S. Æjá. Nú virðast kjósendur ætla að refsa Samfylkingunni fyrir styrkjamál (Steinunn Valdís sagði aaaaalltof seint af sér og þá bara vegna þess að samflokksmaður hennar nánast krafðist þess í fjölmiðlum) en kannski ekki síst fyrir skipulagsmál í borginni. Það verður ekkert framhjá því litið að í tíð R-listans var verktakalýðræðið á fullri ferð og Samfylkingin hafði skipulagsmál á sinni könnu og Dagur B Eggertsson var formaður skipulagsráðs. Vondar ákvarðanir sem við sitjum uppi með: Hringbrautarhraðbrautin með bensínstöðina við enda Hljómskálagarðsins; HR skrímslið í Nauthólsvíkinni við rætur Öskjuhlíðarinnar; Höfðatorgsturninn sem skyggir á innsiglingaljós Sjómannaskólans svo nokkuð sé nefnt. Auk þess var Landsbankinn/Samson, þ.e.a.s. Björgólfur Guðmundsson, búinn að fá leyfi til að leggja undir sig Laugaveginn og Skuggahverfið þar sem íbúar voru flæmdir burt með því að hús voru látin grotna niður í nágrenninu og allskyns fólki leyft að eyðileggja húsin og friðinn. Hin upphaflega hugmynd um tónlistarhús varð að marghöfða skrímsli sem þjóna átti Landsbanka/Samson/Björgólfi þar sem hótel, ráðstefnusalir og höfuðstöðvar bankans skyggðu á upphaflegan tilgang jafnframt því að leggja undir sig gríðarlegt flæmi við höfnina sem lítur nú út eins og ógróið sár þar sem Faxaskáli stóð áður. Bjakk bjakk og bjakk. Hjálmar Sveinsson, fjórði maður á lista Samfylkingarinnar nú, hefur reyndar barist gegn þessu (og vakið fólk eins og mig til vitundar um verktakalýðræðið) en hann hefði frekar átt að leiða listann —  sem hefði eflaust fengið mun meira fylgi undir forystu hans. Einn og sér nægir Hjálmar ekki til að ég kjósi Samfylkinguna (þó mér hugnist reyndar Björk Vilhelms alltaf vel og Sigrún Elsa hefur staðið sig frábærlega í Orkuveitu-málum og margt annað fólk á listanum er ágætt). Svo hef ég heldur ekki gleymt hve Samfylkingin er ósamkvæm sjálfri sér í náttúruverndarmálum. Nei, ég kýs ekki Samfylkinguna núna.

Sjálfstæðisflokkurinn — listabókstafur D. Það þarf varla að fjölyrða um álit mitt á Sjálfstæðisflokknum, fyrir og eftir hrun. Reyndar hef ég fjölyrt um það svo mörgum sinnum að jaðrar við þráhyggju. Í gær fékk ég svo „persónulegt bréf“ frá Hönnu Birnu, eins og Jenný Anna fékk líka og e.t.v. allar konur í Reykjavík (hef enn ekki heyrt um karlmann sem fékk svona bréf). Þó er ég vandlega merkt hvar sem því verður við komið, að ég vilji ekki fjöldasendingar, markpóst eða annan ruslpóst. Ég hugsa að ég taki það með mér á kjörstað og reki það uppundir trýnið á einhverju Sjálfstæðismenninu þar og heimti afsökunarbeiðni. Auðvitað ættu allir Sjálfstæðismenn alltaf að vera tiltækir með afsökunarbeiðnir fyrir tilvist sinni þannig að það ætti að vera auðsótt. Atkvæði mitt fá þeir ekki. Aldrei.

Vinstri græn — listabókstafur V. Það sem gerir útslagið með að ég kýs Vinstri græn að þessu sinni er oddviti listans, Sóley Tómasdóttir. Ég hef áður sagt að ég er sammála henni í einu og öllu og nú hefur hún sembeturfer sagt að ekki komi til greina að starfa með Sjálfstæðisflokknum.*** Vinstri græn hafa, eins og kunnugt er, algerlega hreinan skjöld í landsmálum hvað varðar græðgisvæðinguna og hrunið. R-listasamstarfið er ekki alveg eins gott í baksýnisspeglinum, sbr. það sem áður er sagt um skipulagsmál. Annars hefur VG auðvitað haldið uppi merkjum félagshyggju í borgarstjórn sem annarstaðar og ber að þakka það, hér og nú og ævinlega.

Vegna þess að ég hef alltaf, eins og ég sagði hér að ofan, skoðað verk og verkáætlanir vinstri flokkanna, þá hefur enginn einn þeirra átt mitt atkvæði og ég hef aldrei skráð mig í neinn þeirra. Ég hef meirasegja aldrei viljað segja neinum hvað ég hef kosið og hefur það valdið allskonar misskilningi í fjölskyldu minni, mér oft til mikillar skemmtunar. Í fyrsta skipti í síðustu alþingiskosningum gat ég þó tilkynnt fyrirfram og án þess að hugsa mig um að ég myndi kjósa Vinstri hreyfinguna grænt framboð, VG. Nú gat ég í rauninni gert það sama, um leið og ljóst var að Sóley myndi leiða listann í Reykjavík.

Í dag fer ég að kjósa. Ég er vinstri sinnaður feministi og ég kýs Vinstri græn.

__
* Norræni íhaldsflokkurinn segir á heimasíðunni: „Stofnum eigið herlið. Verjum sama hlutfalli þjóðartekna til hermála og hin Norðurlöndin. Sjáum sjálf um okkar öryggisgæslu.“ Og um trúmál segir þetta, orðrétt: „Evangelísk Lútersk trú er okkar ríkistrú. Sú siðfræði sem þessi trú byggir á er sú siðfræði sem þetta þjóðfélag byggir á. Þessa siðfræði á að kenna í öllum grunn-skólum landsins. Við viljum taka á ný upp kennslu í kristnifræði. Allir sæki þetta nám, óháð eigin trú. Engin getur orðið Íslendingur sem ekki þekkir þau gildi sem Íslenska samfélagið byggir á“.

** Dæmi af bloggi hans: Vinstri grænir héldu ársfund sinn og merktu sig rækilega sem öfgafullan femínistaflokk. Þann sama sem fór á límíngunum yfir litlum hópi perra frá útlöndum sem vildu koma hingað í skemmtiferð. ... Sjálfur tel ég margt af því sem teprurnar kalla klám ekki annað en saklausan lystauka fyrir venjulegt fólk með heilbrigða kynlöngun.

*** Ég held reyndar að fyrri orð Sóleyjar um að hún útilokaði ekki samstarf við Sjálfstæðisflokkinn hafi átt að vera skilaboð til Samfylkingarinnar um að ekki væri hægt að ganga að því vísu að Vinstri græn færu í samstarf við Samfylkingu nema sú síðarnefnda myndi haga sér. Ég tók þetta a.m.k. ekki mjög nærri mér þó betra hefði verið að sjá ekki þau orð á prenti.

Efnisorð: , , , , ,