þriðjudagur, maí 18, 2010

Að ráða ekki við að taka ákvarðanir byggðar á hugmyndafræði

Sé eitthvað að marka skoðanakannanir þá mun grínframboð Jóns Gnarr koma 6 manns inn í borgarstjórn Reykjavíkur. Vonandi er ekkert að marka skoðanakannanir.

Það er merkilegur andskoti að fólk — sem þarf að horfast í augu við að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, sem réðu hér öllu alla síðustu öld og allt þar til mjög nýlega, hafi með hugmyndafræði sinni, stjórnsýslu, lagasetningu, einkavinavæðingu, kvótakerfi og með því að gefa bankana vinum sínum handvöldum — hyggist gera upp við fortíð sína sem kjósendur og þarafleiðandi sinn þátt í að halda þessum flokkum við völd, með því að kjósa grínframboð. Í stað þess að skoða hug sinn og leita eftir hvort því finnist ekki tími til kominn til að byggja hér betra þjóðfélag (og það má alveg gera á sveitarstjórnarstiginu) þá finnst því svo erfitt að taka upplýsta ákvörðun byggða á hugmyndafræði og framtíðarsýn að það segir bara „hey, djók“.

Muniði eftir, Gísla Marteini, frjálshyggjuguttanum? Hann komst í borgarstjórn vegna þess að hann var þekktur úr sjónvarpinu. Frábært tilviljun að efsti maður á lista Besta flokksins skuli einmitt vera svona fyndinn gaur úr sjónvarpinu. Bendir eindregið til þess að kjósendur hafi tekið mjög vel ígrundaða ákvörðun.

Nýjasta tískuorð þeirra sem vita ekkert um pólitík er að hafa svo voða mikið á móti 'fjórflokknum'. Þá virðist svarið vera að kasta atkvæði sínu á flokk sem enginn veit hvernig mun bregðast við í ýmsum mikilvægum málum. Hvað þá hvort hann lifir lengur en Borgararhreyfingin sem sprakk á góðseminni einni saman skömmu eftir síðustu alþingiskosningar. Enginn hefur greinilega lært af því skemmtilega 'djóki'.

Það er ekki nóg með að allir þeir sem ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn eina ferðina enn séu fávitar (það var vitað fyrir); kjósendur Besta flokksins eru fávitar sem munu þurfa að naga sig í handarbökin næstu fjögur árin. Verst að við hin munum líka þurfa taka afleiðingunum — eins og fyrri daginn.

Efnisorð: ,