fimmtudagur, maí 06, 2010

Konur eiga ekki að hata líkamsvöxt sinn eða annarra kvenna

Á mínu heimili eru 365 megrunarlausir dagar ár hvert. Þar með er ekki sagt að mér þyki lítið til megrunarlausa dagsins koma, öðru nær; mér finnst gott að sjónum sé beint að megrunariðnaðinum, fegurðarsamkeppnum, tískuiðnaðinum og hverju því sem fær fólk (lesist: konur) til að hata líkama sinn, og reynt að sporna gegn þeim áhrifum.

Rétt eins og fyrsta maí þá get ég vísað á pistil sem ég skrifaði í fyrra um þetta mál. Hann skrifaði ég eftir að hafa lesið viðtal við Sigrúnu, sálfræðinginn sem stendur fyrir megrunarlausa deginum. Reyndar hafði ég lengi ætlað að skrifa um það sem varð svo niðurlagið á pistlinum, þ.e. hvernig konur hafa hafa látið stilla sér uppí lið* eftir því hvaða líkamsvöxt þær hafa og berja svo á konunum í hinu liðinu með uppnefnum og fyrirlitningu.** Hæðst er að þeim bæði á bak og jafnvel uppí opið geðið á þeim. Þær sem eru þungar verða oftar fyrir því en þær léttu, það er ekki spurning, en það má samt ekki á milli sjá hve andstyggilegar nafngiftir hvorum um sig eru gefnar. Þetta skaðar okkur allar.

Mér finnst niðurlagið á pistlinum vera mikilvægt og endurtek hann hér, svona ef ske kynni að lesendum sé um megn að fylgja tenglinum til að lesa pistilinn í heild sinni:

Konur eru ekki og eiga ekki að vera í stríði við hverjar aðrar. Konur sem telja sig feitar hata ekki grannar konur og konur sem eru grannar hata ekki konur sem telja sig feitar eða eru yfir kjörþyngd (ath. það er ekki það sama að vera yfir kjörþyngd, vera feit og finnast hún vera feit, þrennt ólíkt). Það er hreinlega rangt að líta svo á að konur skiptist í tvö lið. Það eru eflaust ýmsar kenningar til um afhverju þetta hefur þróast svona, að konur telji sig betur settar með því að níða niður líkamsvöxt annarra kvenna, en það er alger óþarfi að halda því áfram. Stoppa hér!

___
* Hér á vel við að tala um að „deila og drottna,“ því enginn græðir á því nema karlveldið (sem drottnar) að við séum ekki saman í liði.
** Mér sýnist að þetta falli undir sjöunda boðorð megrunarlausa dagsins.

Efnisorð: , ,