föstudagur, apríl 30, 2010

Gjöfin sem var seld (og veðsett)

Ég hef alltaf tengt taflmennsku við gáfur. Kannski vegna þess að ég kann bara mannganginn en skil ekki nóg til að kunna að tefla. Verð heimaskítsmát æ ofan í æ þá sjaldan sem ég læt plata mig að skákborðinu. En svo er ég líka alin upp við að skák sé mikil andans íþrótt, svona eins og flestir Íslendingar.

Það hefur samt eitthvað mikið geigað þegar Helgi Áss Grétarsson fékk stórmeistaranafnbótina. Ef marka má grein sem hann skrifar í Fréttablaðið í dag og kallar „Norræna ofveiðisamfélagið“ þá hefur alveg farið framhjá honum afhverju Íslendingum er upp til hópa illa við kvótakerfið. Hann virðist halda að það sé vegna þess að við skiljum ekki að það þurfi að „stuðla að virkari fiskvernd og aðlaga afkastagetu fiskiskipastólsins að afrakstursgetu nytjastofna“ því annars sé fiskurinn ofveiddur. Það er nú bara ekki það sem um er deilt.

Ég á erfitt með að ná utanum þá hugsun hjá honum að óánægja með kvótakerfið snúist um ofveiði, því það er ekki eins og tildæmis síðastliðið eitt og hálft ár hafi ekki stundum verið gefið til kynna að kvótinn hafi gengið svo kaupum og sölum og gert suma svo óstjórnlega ríka á kostnað byggðarlaga þar sem mannlíf fór nánast í rúst, og að ofaní kaupið hafi kvótinn verið veðsettur — óseldur fiskur verið veðsettur — til þýsks banka. Það er ekki takmörkun fiskveiða sem hefur verið svona óvinsæl heldur það að kvótinn var gefinn þeim sem svo máttu selja hann (og veðsetja) að vild; almenningur horfði svo uppá ósköpin án þess að fá rönd við reist. En hefur leyft sér að röfla. Röflið varð reiðiblandnara eftir hrunið þegar þetta með veðsetninguna kom í ljós.

En ekkert af þessu fattar Helgi Áss, hann er bara svo hissa á að við viljum ekki að fiskveiðar séu takmarkaðar. Ég held sveimér þá að það væri vafamál hvort okkar yrði heimaskítsmát ef við settumst að tafli.

Efnisorð: , ,