sunnudagur, apríl 11, 2010

Þar sem ég skamma loksins Fréttablaðið fyrir kvenfjandsamlega afstöðu

Það var hressandi að hlusta á Vilhjálm Bjarnason í Silfri Egils þar sem hann ræddi viðleitni sína við að sniðganga fyrirtæki þeirra sem rændu bankana innanfrá. Svona sem fyrirbærið „formaður samtaka fjárfesta“ þá held ég ekki að ég eigi margt sameiginlegt með þessum manni og mig grunar að auki að hann hafi alla tíð (eða a.m.k. fram að hruni) stutt Sjálfstæðisflokkinn en þó náði ég held ég að vera sammála hverju orði hans í þættinum. Ekki síst þessu með að vera í vanda með símnotkun því öll símafyrirtækin eru í eigu útrásarvíkinganna og með því að versla við eitthvert þeirra er alltaf verið að styrkja einhvern þeirra.

Ég hef, eins og margoft áður hefur komið fram, sniðgengið ákveðin vörumerki eða fyrirtæki um langt skeið. Þegar ég horfði á viðtalið við Lilju Skaftadóttur, sem nýorðin er eigandi að DV (í félagi við aðra), þá fór mig hinsvegar að langa til að prófa til að kaupa DV, þrátt fyrir að sá snepill hafi aldrei verið mér hugnanlegur. Eftilvill er dekur þeirra við klámiðnaðinn eitthvað á undanhaldi og því hægt að fjárfesta í einu og einu eintaki, nú eða jafnvel gerast áskrifandi ef blaðið reynist gott.

Það hljómar e.t.v. furðulega að ég skuli hafa sett DV útaf sakramentinu fyrir það sem Fréttablaðið hefur komist upp með tiltölulega átölulaust af minni hálfu; þ.e. klámefni í blaðinu.* En það hefur ekkert farið framhjá mér (þó ég hafi alltaf flett mjög hratt yfir þær blaðsíður) að smáauglýsingarnar hafa verið af vægast sagt misjöfnum toga. Símalínur** og einkamáladálkar virðast vera dulmál fyrir vændisstarfsemi auk þess sem auglýsingar um nudd virðast á köflum vafasamar. Verstar hafa mér þó þótt auglýsingar um rúnkáhöld fyrir karlmenn sem auglýst voru með frasanum: „Gefðu konunni frí“ eða einhverju álíka geðslegu, svona eins og gúmmíhlutur kæmi fullkomlega í staðinn (og þarafleiðandi konur líka hlutir sem hægt er að skipta út fyrir aðra hluti).

Þetta hefur mér þótt mjög óþægilegt að sé í Fréttablaðinu og alltaf vonast til að fyrir þetta yrði tekið, en jafnframt gert mér grein fyrir að blaðið er rekið í hagnaðarskyni og eigendurnir hafa hingað til ekki vílað neitt fyrir sér sem kemur þeim til gróða. Fréttablaðið berst til mín ókeypis gegnum bréfalúguna og líklega meira mál að afþakka það*** en nota það sér til afþreyingar meðan morgunmaturinn er maulaður. Eða það er allavega afsökun mín fyrir að lesa blaðið og hunsa hinar ógeðfelldu auglýsingar sem rekstraraðilar þess sjá sóma sinn í að hagnast á.

Helst vildi ég auðvitað að til væri dagblað (sem prentað er út og borið í hús) sem væri með ítarlegar fréttaskýringar, vettvangur samfélagslegrar umræðu og sinnti menningu auk þess að vera skemmtilegt og fræðandi á annan hátt og að það blað væri hvorki rasískt**** né fullt af kvenfjandsamlegum áróðri eins og þeim að konur séu söluvara sem þaraðauki sé hægt að skipta út fyrir gúmmíhluti hvenær sem er. Ég myndi gerast áskrifandi að slíku blaði og þá væri allteins líklegt að Fréttablaðið kæmi ekki framar inná mitt borð.

___
* Munurinn á blöðunum er/var þó sá að DV var með mikla og jákvæða umfjöllun um klám og sífellt með klámfengnar myndir af konum. Fréttablaðið hefur ekki verið laust við þetta (Jakob Bjarnar Grétarsson er jú blaðamaður þar og hann virðist vera blaðafulltrúi Goldfinger) en þó hefur það ekki verið eins svæsið.

** Símalínurnar eru jú allavega símasex og eru kannski notaðar til að panta tíma fyrir eitthvað fleira.

*** Á tímum hinna fríblaðanna, Blaðsins og 24 stunda, var ég með stærðar miða á bréfalúgunni þar sem ég afþakkaði öll þessi blöð en samt var þeim iðulega troðið inn í óþökk minni. Ég varð voða fegin þegar ég tók þá tilkynningu niður, fannst alltaf asnalegt að það sæist varla í hurðina fyrir útskýringum mínum á því hvað ég vildi að bærist inn á heimili mitt og hvað ekki.

**** Nei, ég er ekki að segja að neitt dagblaðanna sé rasískt, það væri svo fáránlegt að það væri það. Jafnfáránlegt er samt að kvenfjandsamlegur áróður sé svona ríkjandi eins og hann reynist vera, meira segja í blaði þar sem ég hrósa margsinnis leiðurum fyrir feminísk viðhorf. (Mér telst til að leiðarar Steinunnar Sigurðardóttir hafi a.m.k. níu sinnum orðið mér tilefni til jákvæðra yfirlýsinga af því tagi).

Efnisorð: , , , , , , ,