miðvikudagur, mars 24, 2010

Rúmlega fimmtungur þjóðarinnar kaus Vinstri græn til þess að standa gegn vondum hugmyndum

Æsingurinn vegna bannsins við að gera útá nekt kvenna varð til þess að bloggfærslan sem ég ætlaði að skrifa í gær varð að bíða. Þó var hún svotil fullbúin í hausnum á mér í gærmorgun eftir að hafa lesið leiðara Fréttablaðsins (en nú er ég búin að brjóta og týna). Ég sá svo að Ármann Jakobsson hafði skrifað einn af sínum góðu pistlum sem rímaði ágætlega við það sem ég hafði ætlað að segja, nema hann orðaði það betur.

Vildi þó segja þetta að auki.

Þegar Ólafur Stephensen segir, hálfhissa, að kannski hafi rúmlega fimmtungur þjóðarinnar kosið Vinstri græna til þess að segja nei við hugmyndum um einkarekið hernaðarfyrirtæki, einkaspítala, virkjanir og álver; þá er eins og hann hafi haldið að kjósendur Vinstri grænna hafi í raun viljað eitthvað allt annað. Eins og kjósendurnir hafi í raun viljað álver, virkjanir, einkarekið heilbrigðiskerfi og stríðsfyrirtæki, en bara ekki fattað útá hvað Vinstri græn standa fyrir?

Ég les stundum athugasemdir á Eyjunni þar sem einhverjir lýsa því yfir að „síðast hafi þeir kosið VG en sko aldrei meir“. Þar sem þetta eru yfirleitt nafnlausar yfirlýsingar þá er ómögulegt að vita hvort það er alltaf sami aðilinn sem skrifar þetta eða hvort það eru í raun margir sem kusu Vinstri græn síðast án þess að kynna sér stefnu flokksins og koma svo af fjöllum þegar hann reynist styðja feminisma og vera á móti virkjunum og hernaðarbrölti. Ég veit að fullt af fólki kaus Vinstri græn síðast vegna þess að sá flokkur einn flokka hafði hreinan skjöld í aðdraganda hrunsins — en héldu þessir kjósendur að það væri alveg óvart sem Vinstri græn studdu ekki við gróðærisgeggjunina og hefði ekkert með hugmyndafræði Vinstri grænna að gera? Að andstaða við frjálshyggju, stóriðju og eyðileggingu umhverfis í þágu skammtíma gróða, friðarbaráttan og feminisminn væri sérmál sem tengdust hvorki innbyrðis né neinu öðru?

Kannski vilja þessir „aðeins einu sinni kjósendur VG og aldrei aftur“ gera það sama og stjórnarandstaðan: ýta allri hugmyndafræði til hliðar annarri en þeirri að græða. Nú þarf að græða strax, áður átti að græða mikið (ekki svosem að í hinu fyrra felist ekki óskin um hið síðara). Og ef ekki Vinstri græn vilja stökkva á allar þessar góðu hugmyndir* (sem flestar tengjast Suðurnesjum en þó megum við nú allsekki detta í þá vondu gryfju að persónugera vandann með því að tala um óstjórn Sjálfstæðisforkólfans Árna Sigfússonar), það er að segja stríðsfyrirtæki, einkaspítala, stærra álver, fleiri virkjanir — þá er heimtað að einhverju öðru verði reddað og það strax. Og kemur þá aftur að pistli Ármanns um Draumalandið:

„ Meginhugmyndin er sú að það þurfi að bjarga þjóðinni og hún hefur reynst furðu sterk jafnvel í þenslu og góðæri, hvað þá í kreppu eins og núna. Þess vegna beri að taka öllum tilboðum um fjárfestingar fagnandi því að þeim fylgja alltaf störf, jafnvel þó að ávinningurinn sé óljós og fórnirnar miklar.“

„Í stuttu máli er kreppusöngur ársins 2010 nákvæmlega eins og góðærissöngur þenslunnar sem Andri lýsir í Draumalandinu. Hann er jafnvel enn ofstækisfyllri og enn sannfærðari um að allir sem eru á öðru máli séu pólitískir ofsatrúarmenn á meðan hans eigin trúboð sé sannleikurinn og lífið.“


HHG hefur orðað það þannig: „í Sjálfstæðisflokknum er eiginlega fólk sem að hugsar ekkert mikið um pólitík og er frekar ópólitískt.“ Á móti kemur að þetta fólk stimplar allar aðrar skoðanir sem öfga. Eins og það að vilja ekki halda áfram að taka öllum tilboðum um fjárfestingar til að halda partýinu gangandi.

___
* Nýlega skrifaði Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins grein þar sem hún átaldi ríkisstjórnarflokkanna fyrir „ýtrustu kröfur um vinstri áherslur“ og kallaði eftir sátt og samstöðu allra flokka (þ.e.a.s. að öllum uppátækjum á vegum stjórnarandstöðunnar sé tekið þegjandi og hljóðalaust). „Stífni og krafa um hörð vinstri sjónarmið ríkisstjórnarflokkanna“ væri orsök allra illdeilna á Alþingi. Hún virðist, eins og Ólafur Stephensen, vera algerlega forviða á vinstri áherslum vinstri flokka. Sem þó, í tilviki Vinstri grænna, eru algerlega skýr og hafa alltaf verið.

Efnisorð: , , , , , , ,