þriðjudagur, mars 23, 2010

Nektarsýningar bannaðar með öllu

Vúhú!

Alþingi samþykkti í dag fortakslaust bann við því að bjóða upp á nektarsýningar eða að gera með öðrum hætti út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru.

Frumvarpið var upphaflega lagt fram af Kolbrúnu Halldórsdóttur en nú studdu það flestir þeirra þingmanna sem viðstaddir voru atkvæðagreiðsluna.

Meira segja gegnheilir Sjálfstæðismenn á frjálshyggjuvængnum greiddu atkvæði með frumvarpinu, enda varla hægt að setja upp sakleysissvipinn lengur og láta eins og nektardans sé saklaust fyrirbæri þar sem allir aðilar koma jafnir að málum; dansarar, áhorfendur og þeir sem flytja inn stúlkurnar og reka staðina. Mansalsmálin* sem upp hafa komið hafa líklega opnað augu þeirra** sem þóttust fram að því halda að allar stelpur dreymdi um að dansa naktar og kæmu unnvörpum frá öðrum löndum kátar og glaðar til verksins.

Nú er ríflega fimmtán ára sögu nektardansstaða á Íslandi að ljúka. Húrra fyrir því.

___
* Burtséð frá mansali þá eiga næstum allar konur sem starfa á nektarstöðum hræðilega fortíð og varla hægt að tala um að þær séu þar vegna þess að þær hafi talið margt annað standa sér til boða. Þær eru ýmist í fíkniefnavanda fyrir eða verða háðar fíkniefnum eftir að hefja störf í klámbransanum; þetta eru ekki störf sem konum líður vel með að sinna. Konur með sterka og jákvæða sjálfsmynd sækja ekki í störf í klámbransanum, hvorki sem nektardansarar, klámmyndaleikkonur né vændiskonur.
** Tilburðir Hells Angels í þá átt að hasla sér völl hér á landi hafa eflaust átt sinn þátt í því að þingmenn hafa áttað sig á að á tími væri kominn að taka í taumana.

Efnisorð: ,