sunnudagur, mars 28, 2010

Saga nektardansstaða

Nú þegar hillir undir endalok nektardansstaða á Íslandi (húrra!) lagðist ég í rannsóknir á sögu þeirra. Geiri í Goldfinger hefur verið svo áberandi undanfarin ár að allir hinir staðirnir hafa nánast gleymst. Einhvernveginn grunar mig þó að það sé ekki vegna heilbrigðrar samkeppni sem hinir staðirnir hafi lagt upp laupana, enda virðist sem ofbeldi hafi einkennt samskipti eigendanna. — Svo ekki sé nú talað um eignarhaldið á konunum sem dansa á stöðunum en þær hafa yfirleitt verið innfluttar frá austantjaldslöndunum fyrrverandi; þar sem allt frá falli múrsins hefur verið erfitt efnahagsástand og erfitt að fá vinnu fyrir mannsæmandi laun. Og mörgum konum þar hefur verið boðið 'betra starf fyrir góð laun' í framandi löndum. Stundum hafa þær farið sjálfviljugar (án þess þó að vita hvað beið þeirra), jafnvel meðvitaðar um til hvers var ætlast af þeim en einnig algerlega nauðugar. — En hér stendur ekki til að fjalla um mansal eða kjör þessara kvenna yfirleitt, heldur skoða sögu nektarstaðanna í ljósi þess að henni sé að ljúka.

Ég skoðaði eingöngu umfjöllun dagblaðanna til að rifja upp þessa sögu. Eflaust eru svo ýmsar greinar í tímaritum, s.s. Veru, um þessa nektardansstaðavæðingu alla saman, nóg var um hana í dagblöðunum. Þar fór DV fremst í flokki við að auglýsa þetta upp sem heilbrigða skemmtun — enda finnst öllum gaman að horfa á fallegar stelpur. Helgarpósturinn sló á sömu strengi en leiðarar Moggans voru á móti þessari þróun enda þótt auglýsingar frá Bóhem og Vegas væru birtar í blaðinu.

Í mars 1995 birtist fyrst umfjöllun í fjölmiðlum um Bóhem sem þá virðist hafa starfað stuttan tíma á Vitastígnum og blaðamenn sendir í dulargervi á staðinn til að tékka á starfseminni.* Fram að því höfðu verið fluttar inn stakar nektardansmeyjar og þær kynntar undir nafni (sbr. Súsanna í baðinu) og svo hafði indverska prinsessan farið mikinn.

Í ágúst 1995 er Bóhem sagður eini nektardansstaðurinn, Geiri er ekki kominn með Goldfinger heldur rekur Hafnarkrána fyrir öreiga í fyllibyttustétt og Óðal er ennþá bara dansiballastaður.

Vegas opnaði svo 19. apríl 1996,** jafnskjótt eru eigendur staðanna tveggja komnir í hár saman og rúmlega það: dyravörður á Vegas réðist ásamt öðrum manni á eiganda Bóhem.*** Sama ár varð Óðal líka að nektardansstað.

1997 voru framin tvö morð sem tengdust Vegas, í fyrra skiptið var maður barinn til dauða þar innandyra af tveimur öðrum en í hinu síðara fékk einn gesta staðarins far með tvíburabræðrum sem óku með hann uppí Heiðmörk þar sem þeir rændu hann og drápu.

Í janúar 1999 er talað um að sex nektarstaðir séu starfandi í Reykjavík (ofangreindir ásamt Clinton, Club 7 og Þórscafé), sama ár er a.m.k einn staður búinn að opna á Akureyri, en alls urðu þeir þrír, ef ég man rétt.

Geiri opnaði svo súlustaðinn Maxims þann 13. desember árið 1998 í sama húsnæði og Hafnarkráin var áður.

Geiri opnaði svo annan súlustað, Goldfinger, í Kópavogi í desember árið 2000 og ári síðar lokaði hann í Hafnarstræti, en hann taldi sig hafa verið flæmdan úr miðbænum því honum hafi verið „talin trú um að þetta væri bannað þar.“**** Í miðbænum tóku við staðir eins og Strawberries sem aðallega varð frægur fyrir að Dabbi Grensás ásamt sonum Geira fór þangað til að berja eigandann, sem áður starfaði á Goldfinger (sagan frá Bóhem/Vegas endurtók sig). Hnefavaldi strípikónga ***** verður því síður beitt á næstunni,****** ætli Geiri haldi sig ekki bara við lögsóknir á hendur blaðamönnum og jafnvel ríkisvaldinu til að framfleyta sér í framtíðinni.

___
* DV voða duglegt að kynna sér málin, merkilegt hvað myndirnar af nöktum konum skreyttu alltaf umfjöllunina mikið. Tóku líka viðtöl við eigendur og dansara sem sammæltust um hvað þetta væri frábært. Þær voru líka allar útskrifaðar úr dansskólum, en umræðan um 'listdans' var mjög merkileg þó út í þá sálma verði ekki farið hér.
** Mogginn fylgdist glaður með opnun Vegas. Fyrst um sinn störfuðu þar kanadískar nektardansmeyjar, sendar af Hells Angels (það er semsé ekkert nýtt að Hells Angels teygi anga sína hingað). En eins og Garðar Kjartansson, þáverandi eigandi Óðals sagði: „ég vissi ekkert af því.“ Alltaf allt svo saklaust og gott hjá blessuðum mönnunum í kjötskrokkasölunni.
*** Haraldur Böðvarsson, sem nú er látinn og var sonur þáverandi lögreglustjóra var einn eigenda Vegas.
**** Á þeim tíma sem nektardansstaðir spruttu upp sem gorkúlur var Ingibjörg Sólrún Gíslsadóttir borgarstjóri í Reykjavík (1994-2003), fyrsta konan í 34 ár. Mér fannst alltaf sem opnun nektardansstaðanna, vinsældir þeirra og málsvörn þeirra sem kröfðust að staðir sem þessir væru reknir, væri andsvar karlveldisins við framgangi feminisma, svokallað backlash, sem kom auðvitað fram víðar en hér sem aukin áhersla á klám og nekt hverskonar. En hér setti þetta líka borgarstjórann í vanda því (að því er mér skilst) borgarstjórn hafði takmörkuð völd til að stoppa þessa þróun (þ.e.a.s. loka stöðum eða meina nýjum að opna) eða að minnsta kosti var því alltaf vísað til Alþingis að setja lög. Það tókst svo auðvitað aldrei meðan Sjálfstæðisflokkurinn var í stjórn.
***** Erla Hlynsdóttir blaðamaður fékk á sig málsókn fyrir að skrifa um þetta mál. Hún hefur verið sérstakt skotmark þeirra sem vilja þagga alla umræðu um nektardansstaði. Viðbót: Lára Hanna fjallar um og vísar í grein um tjáningarfrelsi fjölmiðla og málsóknir gegn þeim.
****** Hér á vel við að taka sér Mörð Valgarðsson til fyrirmyndar og lýsa yfir að: „Þeir einir munu vera, að ég hirði aldrei þó að drepist.“

Efnisorð: , , , , ,