þriðjudagur, mars 30, 2010

Strípikóngar krefjast bóta

Kvenútgerðarmennirnir sem reka strippbúllurnar Goldfinger, Óðal* og Vegas munu vera á þeim buxunum að réttast sé að fara í mál við ríkið** vegna laga um bann við nektarsýningum sem taka gildi 1. júlí næstkomandi.

Í Fréttablaðinu eru þeir Ásgeir Davíðsson, Grétar Ingi Berndsen og Davíð Steingrímsson kallaðir „veitingamenn í nektargeiranum“ og segir sá fyrstnefndi að hann muni tapa allt að 800 milljónum króna vegna lagasetningarinnar.

Það verður frábært ef þeir leggja fram slíkar fjárkröfur. Þeir þurfa þá líklega að rökstyðja þær með því að gera nákvæmlega grein fyrir í hverju gróðinn er fólginn samkvæmt bókhaldi, sýna fram á laun og launatengd gjöld og annan kostnað. Ég geri auðvitað ráð fyrir að hver einasta kona sem hingað hefur komið glöð og sæl til að fá að sýna sig nakta fyrir íslenskum karlmönnum*** hafi fengið launaseðil og hægt sé að sýna fram á að þær hafi kvittað fyrir móttöku launa sinna eða millifærslur inná bankareikninga í þeirra nafni. Af því hafi svo verið greiddir skattar og skyldur hér á landi.

Allt þetta og miklu fleira sem ég kann ekki skil á en tilheyrir bókhaldi fyrirtækja sem eru með allt uppi á borðum og gegnsæjan rekstur (annað en undirheimastarfsemin sem sagt er að taki við eftir lagasetninguna) hlýtur að koma í ljós þegar þessir heiðarlegu herramenn gera grein fyrir skaðanum sem ekki bara þeir heldur karlasamfélagið allt hefur orðið fyrir við þessa svívirðilegu innköllun kvenútgerðarkvótans.

___
* Viðbót: Kaffi París mun vera rekið af sama eiganda og Óðal. Þar með bætist það því í hóp fyrirtækja sem ég sniðgeng því þar mun ég aldrei aftur setjast inn.
** Svo eru þeir að spá í að fara í mál við Steinunni Valdísi þingkonu Samfylkingarinnar vegna þess að hún vogaði sér að segja að mansal og önnur skipulögð glæpastarfsemi sé fylgifiskur kvenútgerðarinnar. (Sjá einnig neðanmálsgrein við þessa bloggfærslu hér á síðunni.)
*** Og erlendum ferðamönnum, ekki má gleyma þeim. Íslandsferðin verður hrikalega óspennandi upplifun hjá þessum greyjum þegar kvenskrokkasýningarstaðirnir loka; bara Gullfoss og Geysir og ekkert meir.

Efnisorð: , , ,