fimmtudagur, apríl 29, 2010

Bjarni Ármanns græðir þegar þú grillar á kvöldin

Mikið hlýtur það að hafa verið hressandi í morgunsárið fyrir alla grillmeistara landsins að lesa sér til fróðleiks * að Bjarni Ármannsson á fyrirtækið sem flytur inn allt gas til landsins. Í hvert sinn sem hin mikilvæga og karlmannlega utandyra-eldamennska er stunduð er það aur í vasa Bjarna Ármanns. Það hlýtur að gleðja alla grillara (hvort sem þeir græða á daginn eða ekki), enda fékk Bjarni ótrúlega snautlegan starfslokasamning hjá Glitni banka hér um árið — ekki nema 900 milljónir auk þess að vera á launum í eitt skitið ár á eftir — og það eftir að hafa skrimt á lúsarlaunum í bankastjórastólnum (rétt marði 43 milljónir á mánuði undir það síðasta) og fleygt í hann einhverjum 100 milljónum í bónus fyrir árið 2007, svo dæmi sé tekið.

Þennan öðling styrkja allir góðir grillarar.

___
* Fréttablaðið á hrós skilið fyrir að taka út fyrir sviga aðalatriði málsins, semsagt að Bjarni eigi gasið (eins og Pútín á gasið í Rússlandi). Annars hefði fréttin bara verið um verð á gaskútum.

Efnisorð: , ,