föstudagur, apríl 16, 2010

Sjálfstæðisflokksfávitar III

Ég skil ekki alveg kröfuna um afsögn þingmanna í kjölfar birtingu rannsóknarskýrslunnar. Fátt eða nokkuð sem kom fram í henni varpaði nýju ljósi á hegðun þessara þingmanna. Tökum sem dæmi Þorgerði Katrínu. Fyrir þingkosningar í fyrra var vitað um snúning fjármálastjóra heimilis hennar með kúlulánið í Sjö hægri. Það sem meira er, flokksbundnir Sjálfstæðismenn kusu Þorgerði Katrínu varaformann á landsfundi seint í mars en þá var löngu vitað um gróðabrask hennar og handboltahetjunnar.* Rúmum mánuði fyrir landsfund var þessi athugasemd skrifuð á „endurreisnarsíðu“ Sjálfstæðisflokksins:

Ef litið er á hvað gerist í XD nú um stundir, sé ég ekkert annað en valdatafl og fyrirslátt þeirra sem ábyrgð bera. Þetta er mannlegt að reyna að komast hjá ábyrgð. En flokkurinn verður sjálfur r að draga ábyrga flokksmenn til reikningsskila ef hann á að njóta míns trausts til endurreisnar. Hér vil ég nefna nöfn eins og:

Árna Mathiesen, sparisjóðir og varnarsvæðið
Þorgerður Katrín, Hægri sjö
Pétur Blöndal, Sparisjóðir landsmanna
Illugi, Peningamarkaðssjóður "tapaði sjálf"
Kjartan Gunnarsson, Landsbankinn
Davíð Oddson, einkavæðing og valdaafsal til Halldórs og Finns.


Þrátt fyrir þá vitneskju sem þarna lá fyrir, kusu Sjálfstæðismenn Þorgerði Katrínu (og hina) til að fara fyrir flokknum og í þingkosningum 25. apríl 2009 voru Þorgerður Katrín, Pétur Blöndal og Illugi Gunnarsson kosin á þing.

Þau sitja á þingi í boði Sjálfstæðisflokksins með fulltingi kjósenda flokksins. Krafa um að Þorgerður Katrín (eða þeir hinir) segi af sér núna er því frekar furðuleg. Kjósendur hennar eru hæstánægðir með hana, hennar störf og hennar fjármál. Látum hana dingla þarna inni áfram.

Og af sjálfsögðu á Ólafur Ragnar líka að sitja áfram.

Það er mikið betra að hafa þetta fólk þar sem við getum híað á það (heldur en t.d. Halldór Ásgrímsson sem hlaupinn er í felur og svarar ekki fyrir afglöp og glæpamennsku Framsóknarflokksins sem á svo ríkulegan þátt í gróðærinu og hruninu). En auðvitað ætti enginn að taka mark á þeim framar. Það munu þó dyggir sauðir Sjálfstæðisflokksins gera eins og alltaf: krossa við xD.

___
* Í gær skýldi handboltahetjan hugumprúða sér bakvið barn sitt þegar mótmælendur börðu dyra. Í fyrra gerði eiginkona hans hið sama þegar hún talaði um veikindi barns þeirra þegar öll spjót stóðu á henni vegna sukksins. Bæði leituðu þau skjóls fyrir skuldir sínar í Sjö hægri sem svo hamingjusamlega fór á hausinn með skuldirnar þannig að þau hjónin eru laus við skuldirnar. Og þar sem handboltahetjan var nú svona frekar vel haldin í launum í Kaupþingi meðan bankastjórarnir þar höfðu hag af því að mylja undir varaformann Sjálfstæðisflokksins þá eru þau hjónin varla á flæðiskeri stödd, svona skuldlaus og sæt.

Efnisorð: , ,