mánudagur, apríl 12, 2010

Allir sekir

Bækur Agöthu Christie enda flestar á sama veg. Miss Marple eða Hercule Poirot safna öllum þeim sem grunaðir eru um morð saman í eina stofu þar sem saga glæpsins er reifuð og eftir að allir eru farnir að gruna alla hina um að vera morðinginn — enda höfðu þeir ástæðu og tækifæri til að fremja glæpinn —  er flett ofan af þeim seka.

Undantekning á þessu er bókin Austurlandahraðlestin. Þar kemur í ljós að allir viðstaddir höfðu ástæðu og tækifæri en í stað þess að Hercule Poirot bendi á einn morðingja afhjúpar hann svívirðilegt plott: Þau frömdu öllsömul glæpinn!

Eftirköst hrunsins hafa m.a. verið þau að fylgismenn Davíðs Oddssonar og Sjálfstæðisflokksins hafa verið uppteknir af að kenna útlendingum um hrunið (fall Lehman Brothers) milli þess sem þeir benda á Jón Ásgeir sem aðalglæponinn í bankakerfinu hér. Sé einhver ósammála þessu fær viðkomandi stimpilinn Baugspenni, Baugsmiðill, á mála hjá Baugi o.s.frv. Í liði Jóns Ásgeirs er bent titrandi fingri á Davíð sem þjóðnýtti Glitni* og farið í mál við alla þá sem reyna að reita æruna af blessuðum sakleysingjanum sem aldrei hefur heyrt minnst á Tortóla. Framsóknarmenn frýja sig sök með því að benda á að síðasta árið fyrir hrunið hafi þeir ekki verið í ríkisstjórn heldur Samfylkingin,** Samfylkingin bendir á Framsókn og Davíð. Sjaldnast er minnst á Landsbankann nema í tengslum við Icesave og Björgólfarnir hafa næstum alveg sloppið en minnist einhver á þá er strax bent á Jón Ásgeir. Kaupþing var svo mikið í fréttum á tímabili að engin eyðir orðum á það hræ meir.

Í stuttu máli sagt, allir hafa bent á alla og gert það að megininntaki málsvarnar sinnar að hinir séu ekkert betri. Nú gerist það óvænta að rannsóknarskýrslan áfellist alla ofangreinda jafnt (og fleiri til).*** Ráðherrar og embættismenn (þ.m.t. Davíð Oddsson í hlutverki Seðlabankastjóra) hafi sýnt af sér vanrækslu, stjórnendur og eigendur bankanna hafi farið óvarlega, notað innherjaupplýsingar í eigin þágu og — án þess að það hafi beinlínis verið orðað þannig — rænt bankana innanfrá.**** Hugmyndafræði stjórnvalda sem lækkuðu skatta á þenslutímum (sem var rangt af þeim) og hækkuðu lánhlutfall Íbúðalánasjóðs gerði illt verra en upphaf klúðurs þeirra sé þó að rekja til einkavæðingar bankanna. Semsagt, aftur: allir ofangreindir áttu hlut að máli í falli bankanna, enginn er saklaus.

Samt lýsti enginn ráðamanna því yfir við rannsóknarnefndina að hann hefði sýnt af sér vanrækslu í starfi***** og enginn af öllum þeim sem siðfræðinefndin talaði við tók siðferðilega ábyrgð.

Vonandi verður eitthvað af þessu liði dregið fyrir dómstóla og dæmt til refsingar. Kannski kviknar þá á perunni og einhver ljósglæta kemst í skúmaskot heilastarfseminnar þar sem samviska er hjá venjulegu fólki.

___
* Skv. Páli Hreinssyni var það ekki endilega góð hugmynd að þjóðnýta Glitni, a.m.k. var það ekki gert að vel ígrunduðu máli.
** Skv. rannsóknarskýrslunni voru bankarnir feigir áður en Samfylkingin settist í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og á hún því ekki að því leytinu sök á hvernig fór. Það á Framsókn hinsvegar, þó það sé kannski ekki tekið fram.
*** Hér má minna á magnaða bloggfærslu Hnakkusar þar sem hann nefnir marga þá sömu og rannsóknarskýrslan fjallar um.
**** Það var dásamlegt að sjá Bjarna Ben hneykslast á því hvernig bankarnir voru notaðir sem féþúfa í þágu eigenda sinna; ekki finnst honum neitt athugavert við að meðferðin á Sjóvá hafi verið alveg sú sama.
***** Og Björgvin G. Sigurðsson fyrrverandi viðskiptaráðherra þykist nú auðmjúkur með því að segja af sér þingflokksformennsku. Ekki þingmennsku, heldur bara þessu hlutverki inná þinginu. Sumum er ekki við bjargandi.

PS. Ágætur lesandi benti mér á að Hercule Poirot hefði sjálfur verið í Austurlandahraðlestinni en var auðvitað ekki einn þeirra sem framdi glæpinn. Rétt eins og ekki voru allir stjórnmálaflokkar meðsekir því sem gerðist í aðdraganda hrunsins. Einn flokkanna reyndi meira segja að koma í veg fyrir að glæpurinn væri framinn. Rétt eins og Hercule Poirot þá þurfti ekki annað en að nota gráu sellurnar til að sjá gegnum plottið.

Efnisorð: , , ,