föstudagur, apríl 23, 2010

Miseinlæg afsökunarbréf

Hið eina góða við afsökunarbréf Björgólfs Thor var að það var fyrsta skipti sem einhver útrásarvíkinganna sýndi vott af vilja til að þykjast vera leiður yfir því sem hann hafði leitt yfir íslensku þjóðina.*

Afsökunarbréf Jóns Ásgeirs, sem næstur skrifaði (enn hefur enginn annar bæst í hópinn), átti eflaust að virka enn einlægara en var það auðvitað ekki.** Hann þykist í bréfi sínu hafa „misst sjónar á góðum gildum og mörgu því sem mestu skiptir í lífinu“ — en aldrei hef ég heyrt nokkuð það um Jón Ásgeir sem bendir til að hann hafi á ævi sinni vitað hver hin góðu gildi eru en hinsvegar alla tíð stjórnast af fégræðgi. Þessi maður var ekkert afvegaleiddur; hann markaði sér sína braut sjálfur. Þessi setning fannst mér þó best í bréfi Jóns Ásgeirs: „Fyrstur manna skal ég þó sjálfur viðurkenna, hversu margt mátti betur fara í þessu ferli.“ Fyrstur manna! Í eitt og hálft ár hefur allur þorri íslensku þjóðarinnar bent á þennan mann sem einn aðalleikenda í hruninu, það er ekkert sem kom í ljós bara eftir birtingu rannsóknarskýrslunnar.***

Þó fólk hafi viljað að þessir menn (og allir hinir sem sök eiga á hruninu) bæðust afsökunar og játuðu sök sína og ábyrgð (sem þessir tveir ofangreindir gera að afar takmörkuðu leyti) þá leyfir fólk sér að hnussa yfir þessum aumu bréfaskriftum sem þessir menn bera á borð fyrir almenning. Samt fær Björgólfur Thor plús í kladdann fyrir að hafa þó — einu og hálfu ári eftir hrun — druslast til að biðjast að einhverju leyti afsökunar.

Öllu betra bréf las ég á síðu Egils Helgasonar. Það er ekki skrifað af útrásarvíkingi eða leigupenna fyrir hans hönd heldur af nafnlausum einstaklingi.**** Ég ætla að birta það hér því það gleður mig svo mikið meira heldur en 'gjörið svo vel að taka mig í sátt' bréf hinna raunverulegu fjárglæframanna.

Uppkast að bréfi frá útrásarvíkingi
„Ég missti mig í sjúklegri græðgi. Ég ætlaði að verða svakalega ríkur með því að spila á sífellt hækkandi hlutabréfagengi. Ég vissi að þetta var ekkert annað en stórkostlegt fjárhættuspil, en mér var skítsama vegna þess að ég tók peninga að láni til að leggja undir. Ég tók enga persónulega áhættu.

Ég notfærði mér gott orðspor Íslendinga til að blekkja útlenda banka til að lána mér fáránlega mikla peninga. Ég vissi auðvitað allan tímann að ef spilaborgin mundi hrynja, þá væri allt tapað. Ég passaði því upp á að fela hluta af peningunum.

Ég fékk mikilmennskubrjálæði með allt þetta lánsfé undir höndum. Mér fannst eins og ég væri hrikalega klár fjárfestir, jafnvel þótt ekkert af fjárfestingunum skilaði hagnaði. Þetta mikilmennskubrjálæði skýrir hvers vegna ég þurfti að ferðast um á einkaþotu og eignast hús í fínustu auðmannahverfum stórborga erlendis. Þetta skýrir líka hvers vegna ég stráði gulldufti út á grjónagrautinn.

Ég vissi auðvitað að allt færi til fjandans nema hlutabréfin héldu áfram að hækka í verði. Til að tryggja það laug ég hverju sem var að hverjum sem var. Ég keypti mér velvild þar sem hún var föl og ég hótaði þegar þess þurfti. Ég óð á skítugum skónum yfir allt og alla, oftar en ekki blindfullur eða útúrdópaður með vændiskonur í eftirdragi.

Mér var skítsama um afleiðingar gerða minna á íslenskt þjóðfélag, því að ég var bara að hugsa um hvað ég ætlaði að verða ofsalega ríkur. Ég þóttist vera klárasti bísnissmaður í heimi og neitaði að horfast í augu við hvert ég stefndi.

Núna geri ég mér grein fyrir því hvað ég hef gert íslensku þjóðinni. Ég get ekki lýst því hvað ég skammast mín mikið. Ekki minna skammast ég mín fyrir þá eyðileggingu sem ég hef valdið fjölskyldu minni. Þau þurfa daglega að líða fyrir heimsku mína og græðgi, útskúfuð úr íslensku samfélagi.

Ég geri mér grein fyrir því að þótt ég játi þessar yfirgengilegu syndir mínar, þá verður mér ekki fyrirgefið, vegna þess að ég mun aldrei bæta það tjón sem ég hef valdið. Ég ætla heldur ekki að skila neinu af þeim peningum sem ég skaut undan, því ég þarf á þeim að halda til að lifa góðu lífi erlendis. Smán mín er nefnilega svo mikil að ég treysti mér ekki til að horfa framan í nokkra manneskju hér á landi. Ég er sjálfdæmdur til útlegðar það sem eftir er. Það er í raun mesta refsing sem ég get hugsað mér.

Ætla ég að biðjast afsökunar? Ég held ekki. Til hvers? Ég á ekki skilið fyrirgefningu eins eða neins. Ég gerði þetta vitandi vits. Ég brenndi allar brýr að baki mér í taumlausri græðgi. Ég skil vel þegar fólk veitist að mér á almannafæri, hendir í mig rusli og horfir á mig hatursfullum augum.“


Nú geta allir hinir fjárglæframennirnir skrifað undir þetta bréf. Gjörsvovel!

___
* Björgólfur Thor minntist reyndar ekkert á Icesave, sem hann ekki bara leiddi yfir íslensku þjóðina heldur líka Breta og Hollendinga.
** Af öllu því sem Jón Ásgeir og Björgólfur Thor eru grunaðir um þá dettur ekki nokkrum manni í hug að þeir hafi sjálfir skrifað bréfin.
*** Ef hann átti við að hann væri fyrstur manna til að 'biðja afsökunar' þá var Björgólfur Thor búinn að stela því forskoti af honum.
**** Svo skrifaði Stuðmaðurinn Tómas Tómasson afsökunarbréf sem útlistaði nákvæmlega hans eigin syndir og segir m.a.: „Það var ég sem sló taktinn. Það er mín ábyrgð, það er minn harmur, það ör mun ég bera. Að minnsta kosti fram að 17. júní, eða jafnvel verzlunarmannahelgi.“ Þetta er alvöru hreinskilni.

Efnisorð: