sunnudagur, apríl 18, 2010

Sniðgangan sem gekk til baka

Fyrir mörgum árum síðan hætti ég að kaupa eldsneyti af Skeljungi vegna klámblaðanna sem blöstu við þegar gengið var inn á stöðina sem ég verslaði oftast við. Ég kvartaði ítrekað undan þessu og sagði að mér þætti óþægilegt að vera minnt á stöðu mína í heiminum (kjötstykki karlmönnum til skemmtunar) í hvert sinn sem ég gengi þarna inn og hvort ekki væri gert ráð fyrir því, svona á ofanverðri tuttugustu öld, að konur keyptu bensín á bílinn, hvort þetta væri bara bensínstöð fyrir karla? Eftir að hafa tuðað um þetta nokkurn tíma þá hætti ég alveg viðskiptum við Skeljung og sneri mér að Olís, ef ég man rétt.

Nokkrum árum síðar var ég í vinnu þarsem tekin var upp sú nýbreytni að hafa „Skeljungskort“ í fyrirtækisbílunum til að greiða fyrir eldsneytið (þ.e. kreditkort merkt bílnúmeri og gilti bara hjá Skeljungi). Það var því ekki annað að gera en rölta inná næstu Skeljungstöð næst þegar eldsneytistankurinn var tómur (nema ég hefði viljað borga úr eigin vasa). Þá kom í ljós að klámblöðin voru á bak og burt — eða voru a.m.k. ekki sýnileg. Þau höfðu verið pökkuð inní ógegnsætt plast og viðskiptavinum því hlíft við forsíðumyndinni. Eftir það fór ég sjálfviljug að versla við Skeljung og geri enn* enda hef ég ekki orðið vör við nein klámblöð þar lengi, þau blasa a.m.k. ekki við.

Vona samt að þessi játning mín á að hafa hætt sniðgöngu þessa fyrirtækis sé ekki álitin auglýsing fyrir það eða velþóknun á allri þess starfsemi í bráð og lengd.

Ég hef sömu afstöðu til bensínstöðva og banka, tryggingafélaga og símafyrirtækja; þetta er allt tengt einhverjum fjárglæframönnum og skítabisness og ef ég ætla að nota síma/bíl þá neyðist ég til að skipta við þó þetta fyrirtæki. Tekur því allavega ekki að rjúka burt bara til að lenda í fanginu á næsta fjárglæframanni. Kannski verður seinna hægt að eiga viðskipti við banka, símafyrirtæki og bensínstöðvar sem tengjast engum þeirra, en hér og nú nenni ég ekki að æsa mig yfir ákkúrat þessu.


___
* Hélt reyndar að Engeyjarættin ætti Skeljung eða þartil að Bjarni Ben varð formaður Sjálfstæðisflokksins og farið var að tala um hann í sambandi við N1. Einhverntímann var nú Engeyjarættin ímynd alls hins illa, en nú finnst manni að það slekti hafi í þá daga verið ósköp venjulegt hyski í þeim dansi sem nú lítur út sem skottís miðað við hrunadansinn síðar. En auðvitað lagði Engeyjarættin ekkert upp laupana, eins og sést á N1 og Vafnings braskinu öllu saman.

Efnisorð: , , ,