mánudagur, maí 03, 2010

Pillan í fimmtíu ár

Pillan, P-pillan eða getnaðarvarnarpillan kom fyrst á markað í Bandaríkjunum árið 1960. Hún hafði reyndar verið notuð til að koma skikki á óreglulegar blæðingar frá árinu 1957 en fljótlega áttuðu konur sig á að pillan virkaði sem getnaðarvörn og voru að minnsta kosti hálf milljón kvenna búin að nota hana sem slíka áður en hún hlaut samþykki matvæla- og lyfjaeftirlitsins (FDA) sem getnaðarvarnarpilla. Var sú ákvörðun tilkynnt 9. maí 1960 og gekk í gildi 23. júní sama ár.

Ekki gátu þó konur í öllum ríkjum Bandaríkjanna fengið pilluna fyrr en árið 1965 — og þá bara giftar konur. Ógiftar konur máttu ekki fá pilluna fyrr en 1972, enda uppi deilur um að pillan myndi auka á lauslæti þeirra. Fyrsta Evrópulandið til að leyfa notkun pillunnar var Þýskaland en Frakkar biðu allt til 1967, og eiga þeir þó að vera svo frjálslyndir í kynferðismálum.* Í Japan höfðu menn áhyggjur af því að kynsjúkdómar myndu breiðast út ef smokkurinn væri ekki helsta getnaðarvörnin og leyfðu ekki pilluna fyrr en 1999.

Hér á landi var pillan tekin á lyfjaskrá árið 1967. Stöku kvensjúkdómalæknar höfðu þó ávísað henni áður en þá eingöngu til giftra kvenna.

Pillan olli byltingu í lífi kvenna. Nú gátu þær stjórnað barneignum sínum að vild. Þetta varð til þess að fjölmargar konur gátu beðið með barneignir þar til þær hefðu lokið námi, í stað þess að þurfa að hverfa inná heimilin til að sinna búi og börnum en stóðu svo uppi án menntunar og áttu þarafleiðandi erfiðara með að fá vel launaða vinnu til að framfleyta sér og börnunum. Konur gátu auk þess tekið strikið beint á vinnumarkaðinn og frestað barneignum þar til þær voru búnar að tryggja sig fjárhagslega eða náð þeim árangri sem þær vildu í starfi sínu — nú eða sleppt barneignum alfarið með því að hætta bara allsekkert á pillunni. Þær sem hættu tímabundið á pillunni til að eignast börn gátu byrjað á henni aftur en þurftu ekki að hlaða niður ómegð. Nú eiga konur oftar en áður börn vegna þess að þær vilja eignast börn en ekki vegna þess að þær urðu óvart barnshafandi.

Þessa möguleika hafa konur haft undanfarin fimmtíu ár (ekki þó svo lengi allstaðar) og nýtt til þess ýtrasta. Frelsi konunnar til að stunda kynlíf hvenær sem henni sýnist** án þess að þurfa að hafa áhyggjur af ótímabærum barneignum má ekki vanmeta. Fóstureyðingar væru mun fleiri ef pillunnar nyti ekki við.*** Það er því enginn vafi á að konur eiga pillunni margt að þakka.

Það er svo önnur saga að allt þetta frelsi hefur orðið til þess að konur eru nú að stærstum hluta látnar bera ábyrgð á getnaðarvörnum; fara til læknis, leysa út lyfseðil í apóteki (á eigin kostnað), éta hormónalyfin sín — meðan karlmenn telja sig alveg stikkfrí og sárhneykslast ef þeir eru vinsamlega beðnir að nota smokkinn hvað þá ef kona vill ekki stunda með þeim kynlíf hvar og hvenær sem er.

Nú á konan ávallt að vera tilbúin og hefur enga 'afsökun' fyrir að vilja ekki kynlíf. Verði hún ólétt vegna þess að pillan brást þá er henni kennt um; aldrei dettur karlmanni sem ekki langar í barn með ókunnri konu sem hann sefur hjá eina nótt að hann eigi að nota smokk.**** Nei, hann verður brjálaður ef á að rukka hann um barnsmeðlög útaf því að „hún átti að vera á pillunni.“****** Skiptir þá engu að sumar konur þola pilluna illa eða vilja hreinlega ekki troða hormónalyfjum í sig stóran hluta ævinnar.******* Það er eiginlega ekki lengur valkostur að vera ekki á pillunni.

Pillan hefur því sína kosti og galla eins og flest mannanna verk.
___
* Hér skipta trúarbrögð máli og kaþólikkar hafa haft puttana í tregðu Frakka til að leyfa pilluna. Ítalir leyfðu pilluna ekki fyrr en 1971 enda páfinn æstur gegn henni, eins og margoft hefur komið fram, og enn í dag nota færri ítalskar konur pilluna en aðrar konur í Evrópu. Reyndar nota 80% ítalskra kvenna engar getnaðarvarnir yfirleitt.

**Kynlífsbylting sjöunda áratugarins og kynferðislegt frjálsræði undanfarinna áratuga má rekja til þess að með tilkomu pillunnar gátu konur stundað kynlíf án þess að eiga á hættu að verða barnshafandi.

*** Þó fóstureyðingar séu nauðsynlegur valkostur ef til getnaðar kemur þá er auðvitað mun betra að geta komið í veg fyrir getnað þegar barneignir eru ekki á dagskrá.

**** Útbreiðsla kynsjúkdóma er mikil og virðist ekkert lát verða á, það er auðvitað vegna þess að karlmenn vilja ekki nota smokkinn. Þeim virðist sama um kynsjúkdóma og ekki verða þeir óléttir og ætlast bara til að konan sjái um þetta. Konur verða að auki mun verr fyrir barðinu á kynsjúkdómum en karlar; geta átt í langvinnum veikindum og jafnvel orðið ófrjóar.

****** Sumir karlmenn hneykslast ógurlega á konum sem fara í fóstureyðingu og vilja að þeir fái að ráða því hvort kona fari í slíka aðgerð, vegna þess að þeir eru á móti fóstureyðingum af prinsippástæðum. Ekki dettur þeim samt í hug að nota smokk til að koma í veg fyrir að konan standi frammi fyrir þessum valkostum.

******* Þegar talað er um steranotkun er yfirleitt einblínt á skaðleg áhrif sem hún hefur á karla: kynfæri þeirra, kynhvöt, kyngetu og frjósemi. Þá þykir sannað að karlmenn verði skapbráðari noti þeir testósterón (stera). Allt gerir þetta að verkum að það þykir varhugavert að karlmenn taki stera. — Öðru máli gildir um þegar konur taka hormóna í formi getnaðarvarnarpillunnar. Þá skiptir litlu máli og talið til 'aukaverkana' ef þær finna fyrir aukinni eða minnkaðri kynhvöt, skapsveiflum eða jafnvel fái blóðtappa. Lítið mál þykir að unglingsstúlkur taki pilluna áður en þær hafa tekið út fullan þroska.

Efnisorð: , , ,