laugardagur, maí 01, 2010

Afhverju hrósum við þeim ekki bara?

Í dag langaði mig, svona í tilefni dagsins, að skrifa vandaða og ítarlega grein um stofnun og tilgang verkalýðsfélaga og hvernig fór að halla undan fæti hjá þeim á tímum frjálshyggjunnar. Leitaði mér fanga á Múrnum (þetta gerði ég líka fyrsta maí í fyrra og mun sjálfsagt endurtaka að ári!), vitandi að þar var skrifað um verkalýðsmál á breiðum grundvelli, og fann svo margt og svo áhugavert að mér féllust hendur að semja eigin texta uppúr því öllu.

Kolbeinn Óttarsson Proppé rakti helstu afrek verkalýðsfélaga í pistli á Múrnum 5. maí 2001 og sagði þá þetta:
„Grunnurinn að velferðarþjóðfélagi nútímans var lagður af verkalýð síðustu aldar. Með þrotlausum átökum við fjármagnseigendur, átökum sem kostaði fólk oftar en ekki vinnuna og aleiguna þar með, átökum sem snerust upphaflega um grundvallarréttindi eins og hvíldartíma, félagafrelsi, samningsfrelsi o.fl., með þessum átökum og fórnfýsi lagði verkalýðsstéttin grunninn að nútímasamfélagi. Heilbrigðis- og menntakerfið, félagsleg réttindi, rétturinn til að hafa eitthvað um eigin laun að segja, allt er þetta árangur þrotlausrar vinnu verkalýðsins og hreyfingar hans.“
En áður hafði hann bent á að: „Þróun í verkalýðsmálum hefur hin síðustu ár orðið í þá átt að draga úr samtakamætti verkafólks með vinnustaðasamningum, bæði einstaklingsbundnum og hópatengdum.“ Og ennfremur sagði Kolbeinn Óttar að:
„Það að standa utan félaga hefur verið dásamað á undanförnum árum sem réttur launþegans, hann eigi ekki að vera neyddur til þess að ganga í verkalýðsfélag. Þetta hefur eingöngu orðið til þess að styrkja stöðu atvinnurekenda sem standa ekki lengur frammi fyrir þeirri ógn að allir starfsmenn fari í verkfall. Samstaðan, sem er eina vopn launafólks gegn atvinnurekendum, hverfur algjörlega engum til gagns nema atvinnurekendum sem þurfa ekki að greiða eins há laun. “

Aðrar góðar greinar skrifuðu m.a. Sverrir Jakobsson, Ármann Jakobsson og Huginn Freyr Þorsteinsson, auk annarra Múrverja.

Þetta er gott lesefni. En mér fannst líka skemmtilegt að lesa (þó á annan hátt) pistil eftir Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur, eina af þessum unaðsríku Sjálfstæðiskonum í borgarstjórn sem finnst almenningssamgöngurnar frábærar (fyrir hina) og starfsemi Mæðrastyrksnefndar og Fjölskylduhjálpar yyyyyndisleg (fyrir fólk sem á ekki að borða). Svona nú fyrir utan hvað þeim finnst nauðsynlegt að hafa almennilega golfvelli fyrir atvinnulausa fólkið sem hefur allan þennan frítíma.

Nema hvað, Þorbjörg Helga er að hvetja okkur öll, borgarana sko, til að hrósa leikskólastarfsfólki fyrir gott starf.

Vinnuaðstæður starfsfólks á leikskólum eru nú þannig að þar verður ekkert fólk ráðið enda þótt nú þegar sé undirmannað svo til vandræða horfir ef einhver veikist. Sem þýðir að þá þurfa hinar að sinna fleiri börnum sem er meira vinnuálag og því óheppilegt fyrir bæði starfsfólkið og börnin.

Innkaup á leikskólana hafa verið skorin niður eða skorin við nögl, klósettpappír og eldhúsrúllupappír þarmeðtalinn, föndurvörur ýmiskonar og svo maturinn fyrir börnin og starfsfólkið (sem verður að vera á vinnustaðnum í hádeginu því það þarf að mata börn). Þetta með föndurvörurnar dregur úr skapandi starfi með börnunum, sem starfsfólkið á leikskólunum þarf svo bara að bæta upp með því að ja, syngja?

En til þess að Reykjavíkurborg þurfi ekki að hækka útsvarið* þá er skorið niður á leikskólum.

Jájá, skera bara nógu mikið niður og klappa starfsfólki leikskólanna svo á bakið til að segja þeim hvað þær séu nú duglegar. Sniðugt. Og hlýjar kveðjur svona í tilefni baráttudags verkalýðsins.

Ég ætla skoho að kjósa Sjálfstæðis næst, þau eru svo næs!

___
* Vinstri græn í borgarstjórn segja að eina lausnin við aðsteðjandi vanda sé að hækka útsvarið en Sjálfstæðisflokkurinn hefur það sem megin markmið sitt að útsvarið hækki ekki. Ef útsvarið yrði hækkað mætti bauna því á Sjálfstæðisflokkinn að það væri A) hræsni vegna þess hve mikið er grenjað yfir skattahækkunum ríkisstjórnarinnar, og B) bein afleiðing fáránlegrar meðferðar fjár eins og þegar húsin við Laugaveg 4-6 voru keypt á 600 milljónir, bara til að hafa Ólaf F. góðan. Slíkt má auðvitað aldrei viðurkenna.

Efnisorð: , , ,