fimmtudagur, maí 13, 2010

700 drepnir á innan við fjórum tímum

Í framhaldi af færslu minni í gær um íslenska glæpahunda er vert að fjalla örlítið um byssumenn sem skutu um 700 fugla sér til skemmtunar nú nýlega. Það tók þá ekki nema þrjá fjóra tíma að drepa allt þetta magn og þó hver einasti þeirra væri listaskytta þá efast ég stórlega um að hver einasti fugl hafi drepist við skotið heldur er líklegra að skotin hafi lent tilviljunarkennt á þeim og þeir kvalist þar til mennirnir í gúmmíbátnum hirtu þá upp og drápu þá um síðir.

Ef vefsíða Hins íslenska byssuvinafélagsins væri opin (en ekki harðlæst utanaðkomandi) væri e.t.v. hægt að lesa markmið félagsins þar. Þau eru eflaust háleit og fögur og snúast um virðingu fyrir náttúrunni. Allir gangi alltaf vel um og gæti þess að meiða ekki dýr að þarflausu, aðalmálið sé heilnæm útivera. Svoleiðis fyrrislátt má allavega heyra þegar karlmenn verja áhugamál eins og skotveiði.* Að mínu mati er þetta þó algerlega óverjandi hegðun og glæpsamleg.

Ég held reyndar að blaðamaðurinn hafi verið örlítið sammála mér. Annars hefði hann ekki notað fyrirsögnina Her skotveiðimanna skaut 700 svartfugla.** Þessir karlpungar hegðuðu sér einmitt eins og þrautþjálfaðir atvinnumorðingjar.

___
* Annars er þessum körlum líka lýst þannig að þeir hafi áhuga á „lífsins lystisemdum“ — alveg hljómar það eins og þeir séu súrir núna yfir lokun strippstaðanna.
** Þegar ég var að leita að upplýsingum um Hið íslenska byssuvinafélag sá ég að Mogginn hefur fjallað um skipulagðar drápsferðir þeirra. Þær eru þá baðaðar rómantísku ljósi og látið líta útfyrir að ekkert sé jafn sjarmerandi og karlmenn í morðhug. Jafnframt því sem tekið er fram að svo mikið sé af fugli að það skipti litlu hve margir séu drepnir og svo hafi svartfuglinn verið „nytjaður“ frá aldaöðli.

Efnisorð: , , , ,