miðvikudagur, maí 12, 2010

Glæpahundar undir manna hendur

Ef það er þetta sem slitastjórn Glitnis hefur verið að dunda sér við, þá er ég bara sallaánægð með hve langan tíma hún tók sér.* Hljómar eins og uppúr handriti að allar eigur Jóns Ásgeirs um allan heim séu í sigtinu. Auðvitað er hann búinn að koma ýmsu (mestu) undan — en samt.

Sömu sögu má segja um sérstaka saksóknarann — sem svo margir hafa gert grín að og hneykslast á honum fyrir seinaganginn — það er helvíti öflugt að dúndra Kaupþingsmönnum í gæsluvarðhald og handtaka þá sem þó drullast til að mæta. Best er auðvitað að hann skuli ekki hika við að siga Interpol á þá sem ekki láta sjá sig. Söngurinn um „aumingja Sigga sem þorir ekki heim“ hljómar undir.

Ég nenni ekkert að draga úr því að það hlakkar í mér að þetta lið sé eftirlýst og verði hundelt þar til yfir lýkur. Ég óttast reyndar að þeir fái slappa dóma, varðhundar valdsins sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur raðað í Hæstarétt munu sjá til þess, auk þess sem lögum og reglum hafði beinlínis verið breytt svo fjármagnið mætti nú ávaxtast sem mest í stað þess að vera svona hirðulaust og sofandi alltaf hreint.

Einn dómur yfir einum glæpamanni féll þó í Hæstarétti í dag og því ber að fagna.

Nauðgarinn Bjarki Már Magnússon mun sitja inni í átta ár, eins og héraðsdómur hafði reyndar dæmt áður. Ég skrifaði langa færslu um hann og afbrot hans í ágúst síðastliðnum þar sem ég ræddi sérstaklega um þá karlmenn sem tóku þátt í að nauðga konunni með honum. Eyði því ekki meira plássi og tíma í þau ógeð hér og nú.

Haldi Hæstiréttur áfram á þessari braut þá má vonandi búast við að aðrir glæpahundar fái líka að kenna til tevatnsins.

___
* Vonandi er álíka góð ástæða fyrir því að ekkert heyrist frá skilanefnd Landsbankans og Björgólfarnir hljóti sömu meðferð hjá þeim og Jón Ásgeir hjá Glitni. Svo ekki sé nú minnst á Sigurjón og alla hina sem voru honum til aðstoðar við hina „tæru snilld“, þ.e. Icesave.

Efnisorð: , , , , , ,