laugardagur, maí 22, 2010

Hætta að styrkja „einkarekna“ háskóla frekar en sameina þá

Félag prófessora við Háskóla Íslands vill sameiningu háskóla vegna þess að það muni spara samfélaginu 2 milljarða króna. Þessu mótmæla framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Háskólans í Reykjavík — en ekki skólastjórnendur — vegna þess að „samtök í atvinnulífinu hafa lengi stutt uppbyggingu menntunar á framhalds- og háskólastigi hér á landi og gegnt lykilhlutverki í þeim árangri sem náðst hefur á undanförnum árum“. Já, það er nú líka þessi fíni árangur! Viðskiptafræðinemarnir og lögfræðinemarnir alveg brilleruðu þegar út í atvinnulífið var komið.

Og ekki hafa kennararnir verið skornir við nögl: „Eftir að Sigurjón Árnason lét af störfum sem bankastjóri Landsbankans og hafði fengið 70 milljóna króna lán hjá eigin lífeyrissjóði tók hann að sér stundakennslu við Háskólann í Reykjavík. Sigurjón kenndi námskeiðið Inngangur að fjármálaverkfræði fyrir fyrsta árs nemendur í BS-námi í fjármálaverkfræði.“ Stundakennarar í HR hafa einmitt verið „úr atvinnulífinu“ þannig að þarna má líklega segja að börnin læri það sem fyrir þeim er haft.

Reyndar er ég sammála þessum forstokkuðu saltstólpum atvinnulífsins um að það eigi ekki að sameina háskólana. En þó ekki af sömu ástæðum og þeir. Heldur vil ég að ríkið hætti að styrkja háskólana, nema auðvitað Háskóla Íslands, þar sem allir hafa sömu möguleika til menntunar því innritunargjald er vægt* og það sama fyrir allar deildir.

Ég hef reyndar skrifað um það áður og vil því ítreka:
Á sviði menntamála vil ég að hætt verði að styrkja (a.m.k. í eins miklum mæli og verið hefur) þá háskóla sem eingöngu hafa það að markmiði að unga út lögfræðingum og viðskiptafræðingum (sem allir hafa að sínu helsta markmiði að græða sem mest). Félagsvísindadeild Háskóla Íslands, svo og Hugvísindadeild og Menntavísindasvið (eða hvað nú Kennaraháskólinn er kallaður) fái hæstu framlögin. Boðið verði upp á námsstyrki, en ekki námslán (nema til þeirra sem ætla í viðskiptafræði og lögfræði**).

Það er nefnilega ekki kostur, heldur galli að „frá HR koma nú árlega um 2/3 allra sem útskrifast með tæknimenntun á Íslandi, um helmingur allra viðskiptafræðinga og um þriðjungur allra lögfræðinga“,*** eins og Viðskiptaráðsdúddinn og vinir hans skrifa. Það væri allavega strax skárra að þetta lið menntaði sig alfarið á eigin kostnað og skólinn sem menntar það fái ekki ríkisframlög ofan á skólagjöldin**** til þess svo að ráða snúðasvín til kennslu.

___
* Skráning í nám í Háskóla Íslands kostar kr. 45.000 og er það greitt einu sinni á ári.
** Það er nefnilega ekki svo að ég haldi að gróðærisgreinarnar lögfræði, viðskiptafræði, hagfræði og hvað það nú heitir, hafi heppnast eitthvað betur í Háskóla Íslands, en sá skóli hefur fjölda annarra námsleiða sem vert er að leggja áherslu á og styðja enn betur.
*** Þeir gera reyndar mikið úr tæknimenntuninni í grein sinni, en minnast ekki á hrakfarir lögfræðimenntaðra og viðskiptamenntaðra nemenda og kennara skólans.
**** Skólagjöld í HR eru lægst 154.000 og hæst 812.500 á önn. Þetta er ekki skóli fyrir hvern sem er — en þó borgum við öll til hans.

Viðbót: Óli Kristján Ármansson er sammála mér í leiðara Fréttablaðsins og hefur reiknað þetta allt út. (Líklega er hann dyggur lesandi minn). Hann segir: „Framlag til HR er 2.067 milljónir króna og 329,4 milljónir renna til Háskólans á Bifröst. Það eru 2.396,4 milljónir króna, eða 16 prósent af útgjöldum til háskóla. Með þeirri ákvörðun einni að hætta framlögum til einkaskóla sem innheimta skólagjöld virðist markmiðum næsta árs í sparnaði í Háskólakerfinu náð.“ —  Frjálshyggjupostulinn Ólafur Stephensen vill afturámóti skólagjöld allstaðar, það ráði nú allir við þau.

Efnisorð: , ,