miðvikudagur, maí 26, 2010

Kallógeð sem fremja glæpi með tittlingum eiga ekki rétt á nafnleynd

Jenný Anna hittir naglann á höfuðið þegar hún notar orðalagið glæpir framdir með tittlingum yfir vændiskaup og kynferðisglæpi.

Ég er sammála bæði henni og Höllu Gunnars um að það er verið að hlífa glæpamönnum við því sem vændiskaupalögin snúast um: opinbera niðurlægingu þeirra sem fremja glæpi með tittlingum. En dómarinn við héraðsdóm Reykjavíkur — Arngrímur Ísberg sérlegur verndari vændiskaupenda — hefur semsagt ákveðið að svona glæpamenn verði ekki nafngreindir í dómnum og að engir blaðamenn verði viðstaddir; í stuttu máli sagt, þeir gætu alveg eins fengið bara gíróseðil sendan heim í stað þess að mæta fyrir dómara því þetta mun bara snúast um sektargreiðslu fái þessi dómari að ráða.*

Vonandi sitja blaðaljósmyndarar fyrir þeim við allar dyr héraðsdóms annan júní næstkomandi. Vonandi verða kvennasamtök með mótmæli við eða í dómshúsinu.

Og alveg burtséð frá því hvort það er vegna þess að það sé stjórnmálamaður meðal þeirra ákærðu eða hvort það er einhver frændi minn eða vinnufélagi frænku minnar; þá eigum við öll rétt á að vita hverjir það eru, með nafni og númeri, sem líta á konur sem hluti sem þeir geta keypt til að svala kynlífsfýsnum sínum á. Lalli Johns er nafngreindur í hvert sinn sem hann fær dóm, hver sem er getur flett honum upp og öllum hans tiltækjum og er hann þó bara vesæll smákrimmi. Enginn hefur séð ástæðu til að hlífa ættingjum hans við nafnbirtingu þegar hann og aðrir minniháttar bísar eiga í hlut. Kallógeð sem fremja glæpi með tittlingum eiga ekki rétt á nafnleynd.

___
* Bjarni prestur og Samfylkingarframbjóðandi talar réttilega um ákvörðun dómarans sem „hið langþróaða vald hvítra karla sem um aldir hefur haldið konum undir sér, meðhöndlað náttúruna eftir hentugleikum sínum, viðhaldið bágri stöðu dökkra kynþátta og fyrirlitið samkynhneigða.“ Og bendir á að „dómstólar vinna verk sín í almannarýminu vegna þess að við höfum litið svo á að glæpir séu ekki einkamál þeirra sem fremja þá eða þola þá.“

Efnisorð: , , ,