mánudagur, maí 31, 2010

Einu sinni var land sem nú er horfið

Bíafra var ríki í vestur Afríku sem nú er horfið af landakortinu. Það stóð enda stutt, um tvö og hálft ár eða frá maí 1967 til janúar 1970.

Forsaga málsins er sú að Nígería fékk sjálfstæði frá Bretum 1960. Nýlenduherrarnir höfðu dregið landamæri Nígeríu með reglustiku og tóku ekki tillit til þess að í norðri bjuggu múslimar en í suðri voru menn ýmist kristnir eða trúðu á stokka og steina. Eftir að Nígería fékk sjálfstæði vildu margir skipta landinu útfrá ættbálkum í stað reglustikuskiptingarinnar og Igbo menn í suðaustri — en þar eru olíulindirnar — lögðust í hernað og drápu m.a. forsætisráðherrann og þrjátíu aðra. Þessu var svarað af hörku. Eftir samningaumleitanir klufu suðausturbúarnir sig svo frá Nígeríu og tilkynntu um stofnun sjálfstæðs ríkis, Bíafra. Landið var bæði landfræðilega og pólitískt einangrað en Bretland, Bandaríkin og Sovétríkin studdu Nígeríu.*

Í júní 1969 stöðvaði Nígería alla aðstoð Rauða krossins við Bíafra, leyfði svo lyfjadreifingu en aðeins afar takmarkaða mataraðstoð.** Höfuðpaur Bíaframanna bað þá Sameinuðu þjóðirnar um að hafa milligöngu um vopnahlé og flúði svo land þegar hann sá að allt var tapað. Rúmlega milljón manns hafði dáið í vopnaviðskiptum eða úr sulti. Nígería var aftur orðið eitt land.*** Bíafra hvarf af landakortinu.

Ég rifja sögu Bíafra upp nú því mér sýnist Ísraelsmenn vera á sömu buxunum og stjórnvöld í Nígeríu meðan á stríði þeirra við Bíaframenn stóð. Það á að svelta Palestínumenn inni og neita þeim um utanaðkomandi aðstoð hvað sem það kostar.

Áður hafa Ísraelar byggt múr til að loka Palestínumenn af, sbr. Berlínarmúrinn og beita ekki síðri aðskilnaðarstefnu en apartheit var í Suður-Afríku svo það virðist líklega rökrétt framhald að reyna að þurrka Palestínu af landakortinu eins og Bíafra. Og nota til þess sömu meðöl.

Alþjóðasamfélagið hefur margsinnis baðað út öllum öngum þegar Ísraelar hafa gengið fram af öllu siðuðu fólki með framferði sínu gagnvart Palestínumönnum. En meðan Bandaríkin bakkar Ísrael upp og neitar að taka af skarið til að stöðva þessi ósköp (nei, ég er ekki að tala um hervald, heldur að hætta að styðja þá til illvirkja) þá kemst Ísrael endalaust upp með þennan skepnuskap gagnvart Palestínu.

Ég fór ekki á fyrirlestur Susan Abulhawa í Þjóðmenningarhúsinu í gær en ég heyrði brot af viðtali við hana í Speglinum. Þar talaði hún um að hún vildi að Ísraelar og Palestínumenn byggju saman í fjölmenningarríki — eins og var á þessu landsvæði þar til Sameinuðu þjóðirnar ákváðu í samviskubitskasti vegna Helfararinnar að leyfa gyðingum að stofna ríki þar. Susan Abulhawa er allsekki að tala um að reka Ísraelsmenn brott eða að Palestínumenn fái öllu að ráða, heldur að þeir sem þarna búa og hafa búið alla sína ævi reyni að lifa í sátt og samlyndi þar sem allir eru jafnréttháir. Aðskilnaðarstefna Ísraelsmanna, hvað þá landtökubyggðirnar og nú síðast árásin á skip sem færa áttu íbúum Gaza vistir, eru skelfileg framkoma fólks við annað fólk.

Það hafa auðvitað komið fram margar hugmyndir og tilraunir til sátta milli Ísraela og Palestínumanna, engin hefur virkað hingað til. Kannski lýkur þessu ekkert fyrr en síðasti Palestínumaðurinn er dauður.

___
* Það er auðvitað bara illgirni að benda á að þessi ríki tóku afstöðu vegna þess að olía var í spilinu.

** Uppúr þessu voru svo samtökin Læknar án landamæra stofnuð af heilbrigðisstarfsfólki sem hafði orðið vitni að hörmungunum og fannst Rauði krossinn hafa verið of hlýðinn við nígerísk yfirvöld.

*** Alla tíð síðan hafa verið skærur milli múslima og Igbo manna (sem eru að mestu leyti kristnir) og sumir telja enn að betra sé að þeir síðarnefndu fái að skilja sig frá Nígeríu.

Viðbót: Í fréttaskýringu Sigríðar Víðis Jónsdóttur kemur ágætlega fram hvernig ástandið er í Palestínu.

Efnisorð: ,