þriðjudagur, júní 01, 2010

Niðurstöður borgarstjórnarkosninga voru ekki á besta veg

Jafn miður mín og ég varð þegar ég sá að Besti flokkurinn reytti fylgið aðallega af Samfylkingu og Vinstri grænum — en ekki Sjálfstæðisflokknum sem kom Gísla Marteini inn, af öllum mönnum* — þá vona ég innilega að illur grunur minn frá því fyrir kosningar rætist ekki.

Ég vona að kjörtímabilið sem er að hefjast verði ekki verra en það sem við þurftum að þola síðast: endalaus valdabarátta ofan á skipulagsklúður, spillingu og orkuveituvandamál. Ég vona líka að Besti flokkurinn hafi ekki í hyggju að standa við hið vanhugsaða loforð um að láta villt rándýr vera lokað inní Húsdýragarðinum; það væri níðingslega gert gagnvart skepnunni. Engin dýr ættu að vera til sýnis í dýragörðum; hvað þá dýr sem hafa fæðst úti í náttúrunni og eru vön risastóru landsvæði til umráða.

Kannski er kvíði minn óþarfur og þetta verður bara allt í besta lagi.
___
* Mér þykir ákaflega leitt að Hjálmar Sveinsson komst ekki í borgarstjórn en þótti líka afleit sú staða á kosninganótt að hefði hann komist inn hefði Sóley dottið út. En Gísli Marteinn, frjálshyggjustyrkjastubburinn komst inn! Ojojojoj.

Efnisorð: , ,