föstudagur, júní 11, 2010

Gefum konum séns í umferðinni

Fyrir nokkrum dögum fékk ég far í bíl. Ég var ein þriggja farþega og kom mér fyrir í sætinu fyrir aftan bílstjórann, sem er karlmaður á miðjum aldri, en ég hafði aldrei áður setið í bíl hjá honum. Ekki var langt liðið á ferðina þegar ég uppgötvaði að þetta var einn versti bílstjóri sem ég hef setið í bíl hjá. Það er auðvelt að dæma bílstjóra í umferðinni útfrá því hvort þeir gefa öðrum séns, hvernig þeir nota stefnuljós, tefja fyrir eða keyra glannalega. Þegar ég er farþegi í bíl tek ég eftir öllum þessum atriðum hjá bílstjóranum og þarf stundum að stilla mig um pirringslegar athugasemdir því mér finnst í rauninni gráupplagt að reyna að siða fólk til þegar það er viðstatt frekar en að senda því tóninn úr mínum bíl sem hefur auðvitað engin áhrif á það þegar það ekur um í sínum. En þessi bílstjóri var semsagt mikið mun verri en allt þetta.

Ég hef held ég bara einu sinni setið í bíl með verri karlkyns bílstjóra, það var fyrir mörgum árum. Ég áttaði mig ekki alveg hvernig hann fór að því en annaðhvort steig hann svona skart á kúplinguna eða bremsuna á nokkra metra fresti en afleiðingin var allavega sú að bíllinn gekk í rykkjum og skrykkjum. Þessi sem ég sat í hjá núna steig fáránlega oft og tilefnislaust á bremsuna en verra var þó að hann virtist ekki geta haldið um stýrið nema kippa reglulega í það svo bíllinn hentist til. Þetta gerði hann á beinum og breiðum vegi jafnt sem í þröngum beygjum en að auki gat hann ekki talað án þess að það hefði áhrif á akstursstefnuna. Ég var mest hissa á að verða ekki bílveik við þessi ósköp (mér hættir ekki til bílveiki) en þetta olli mér aðallega furðu og pirringi. Alls sat ég í einn og hálfan tíma í bílnum en var strax búin að fá nóg eftir nokkra kílómetra.

Versti kvenkynsbílstjóri sem ég hef setið í bíl hjá var allt öðru vísi. Enda mér sé sá bíltúr (sem var frekar stuttur) mjög minnistæður þá get ég ekki beinlínis sagt hvernig vanhæfni hennar sem bílstjóra lýsti sér. En sannarlega gekk allt á afturfótunum og mér var ekki rótt í bílnum. Það sem gerði þó ökuferðina enn ömurlegri var að konan talaði linnulaust um hve vondur bílstjóri hún væri (fram kom að maðurinn hennar segði það við hana) og var mjög óörugg og í hvert sinn sem eitthvað fór úrskeiðis talaði hún um það í hvínandi örvæntingartón. Ég sárvorkenndi henni.

Ég hef reyndar mjög oft setið í bíl hjá konum sem hafa afsakað sig fyrirfram og sagst vera lélegir bílstjórar.* Verði þeim svo á að gefa stefnuljós of snemma eða seint eða drífa sig ekki yfir gatnamót þegar færi gefst þá halda þær um það nokkra tölu sem gengur útá hve misheppnaðar þær séu við þessa iðju. Sjaldnast á lýsing þeirra við; þær eru yfirleitt prýðilegir bílstjórar sem standa sig mun betur en sjálfstraust þeirra segir til um.

Karlmennirnir tveir sem ég gat um hér að ofan afsökuðu sig hinsvegar ekki neitt. Það virtist ekki hvarfla að þeim eina mínútu að akstursmáti þeirra ylli farþegum þeirra vanlíðan. Þeir burruðu sælir í þeirri trú (sem öllum karlmönnum er sameiginleg) að þeir væru stórkostlegir bílstjórar. Sjálfstraustið í toppstandi þó fyrir því væri engin innistæða.

Til er fullt af fólki sem heldur því fram að allar konur séu lélegir bílstjórar.** Hefði það sest í bíl hjá konunni í sögunni hér að ofan hefði það líklega talið sig fá fullgilda sönnun fyrir því. Hefði það hinsvegar setið í bíl hjá öðrum hvorum karlanna hefði örugglega enginn fullyrt að allir karlmenn væru lélegir bílstjórar, enda tíðkast ekki að alhæfa þannig um karla. Konur eru alltaf fulltrúar kynsins konur en karlar eru bara einstaklingar og ekki fulltrúar neins (enda þótt allt miðist alltaf við þá). Sá sem stendur sig ekki er bara undantekning. Öllum konum er sagt að allar konur séu lélegir bílstjórar, þarafleiðandi virðast nánast allar konur trúa því, sbr. afsökunarræða þeirra um eigin ökumannshæfni, jafnvel þó staðreyndir sýni annað.

Er til of mikils mælst að hætta að tala um konur sem vonda ökumenn og gefa þannig konum séns í umferðinni?

___
* Svo oft afsaka konur ökumannshæfileika sína að ég tek sérstaklega eftir þegar konur tala ekki illa um sig sem bílstjóra, svo mikil undantekning er það.
** Sumir karlmenn sitja aldrei í bíl hjá eiginkonum sínum vegna þessara fordóma. Svo alast börnin upp við að pabbi vantreystir mömmu undir stýri og fá þarafleiðandi ekki beinlínis fagra mynd af ökumannshæfileikum hennar. Þessum körlum finnst reyndar ekkert að því að eiginkonan aki börnunum þegar þeir eru ekki með; þeim finnst þá líklega öryggi barnanna minna virði en sitt eigið.

Efnisorð: ,