þriðjudagur, júní 08, 2010

Líka ríkisstarfsmenn

Ég hef vægast sagt verið lítið hrifin af Árna Páli Árnasyni í stóli félagsmálaráðherra. En í morgun þegar ég las grein hans um niðurskurð — þessa sem hefur valdið talsverðri ólgu meðal ríkisstarfsmannavegna þess að hann stingur uppá að þeir fái ekki launahækkun fyrr en árið 2013 — þá var ég aldrei slíku vant alveg sammála honum. Hverju orði. Þetta er þungamiðjan sem mér finnst að ekki megi gleyma:

„Við græðum ekkert til lengri tíma á að fækka lágt launuðu fólki í nauðsynlegum þjónustustörfum. Uppsögn kallar á greiðslu atvinnuleysisbóta, sem eru lítið eitt lægri en lægstu laun. Slík ráðstöfun sparar ríkinu ekkert ef um stöðugildi er að ræða sem nauðsynlega þarf að manna þegar samdrættinum lýkur.“


Árni Páll talar um niðurskurð hjá sendiráðum og lokun Þjóðmenningarhússins (sem ég vil alveg kyngja enda þótt ég hafi síðast verið í því fagra húsi fyrir örfáum dögum). Ég hef áður skrifað um hve hvimleitt það er að hlusta á hverja stéttina af annarri mótmæla að hrunið komi niður á þeim því raunin er sú að þetta kemur niður á okkur öllum og það þarf að koma niður á okkur öllum. Mér finnst Árni Páll koma með nokkuð sanngjarnar tillögur.

Efnisorð: ,