mánudagur, júní 07, 2010

Skulu þá þær konur sem í hópnum eru víkja

Ég hef áður látið í ljós aðdáun mína á Guðmundi Andra hér á þessum vettvangi (þó aldrei við hann sjálfan). Nú í morgun gladdi hann mig óendanlega með þessum ummælum:

„Nú verður hópur stjórnmálamanna uppvís að því að hafa þegið stórfé af stórfyrirtækjum. Skulu þá þær konur sem í hópnum eru víkja.“


Þetta er verulega hnyttið og neglir niður það sem mér og mörgum öðrum hefur fundist undarlegt við umræðuna um styrki (mútur) til stjórnmálamanna en ekki orðað það jafn vel.

Guðmundur Andri heldur áfram og segir:

„Þannig hljóðar ein af þessum óskráðu lagagreinum sem íslensk stjórnmál lúta en enginn nefnir upphátt. Kallarnir með heykvíslarnar og kyndlana sem voru með margra daga umsátur um heimili Steinunnar Valdísar og Þorgerðar Katrínar virtust telja að þeir hefðu náð þeirri siðvæðingu sem þeir stefndu að þegar búið var að hrekja þessar konur úr sínum stöðum. Og gátu sest við tölvurnar til þess að blogga um hversu vond manneskja Sóley Tómasdóttir væri, svo að sú þriðja sé nefnd sem hefur mátt sæta opinberum grýtingum að undanförnu fyrir skoðanir sínar og afskipti af þjóðmálum.“


Þeir karlmenn sem bera blak af Sóleyju Tómasdóttur* fá plússtig, broskalla og mikla virðingu hjá mér.

Ég er hinsvegar ekkert endilega sammála honum þegar hann í framhaldinu útskýrir afhverju Þorgerður Katrín og Steinunn Valdís hafi þegið styrkina. Ég held t.d. að eiginmaður Þorgerðar hafi beinlínis verið valinn í starf sitt með öllum þeim hlunnindum sem því fylgdi til þess að spúsa hans væri örugglega stuðningsmaður Kaupþingsbanka í öllum þeim málum sem þurfa þótti.

En vegna þess hve jákvæð ég er í dag — sem er Guðmundi Andra að þakka — þá ætla ég bæði að byrja pistillinn á hrósi og enda á því sama: Mér finnst nýyrðið „fjárflokkur“ verulega viðeigandi og hnyttið.

___
* Ekki skal mig undra að Sóley íhugi meiðyrðamál. Af nógu er að taka.

Efnisorð: , ,