mánudagur, júní 14, 2010

Þjóð í tímabundinni kreppu getur veitt þróunaraðstoð

Í gær lauk ég loks við að lesa upplýsingarit Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, sem dreift var með Fréttablaðinu 21. maí síðastliðinn. Ég hef mjatlað gegnum blaðið smátt og smátt, haft það á matarborðinu og lesið það þegar ekkert annað hefur verið við hendina; en sú regla ríkir á heimilinu að ávallt skal lesa við matarborðið.

Það er auðvitað frekar óviðeigandi að sitja með kræsingar fyrir framan sig og kjamsa á þeim meðan lesið er um fátækt, heilbrigðisvandamál, ungbarnadauða, vatnsskort og ólæsi.* En reyndar er upplýsingaritið uppfullt af jákvæðum fréttum. Viðtöl við fólk sem starfar við verkefni Þróunarsamvinnustofnunarinnar eða hefur notið góðs af þeim segja meira en tölulegar upplýsingar, gröf og skífurit um hvernig starfi stofnunarinnar er háttað og hvað „Ísland græðir á því“ að sinna þróunarhjálp í Afríku. Mér fannst viðtalið við Agnesi Jana í Malaví bera af mörgum góðum og hyggst endursegja hluta þess hér. Hún er fædd 1966 og er fimm barna móðir sem byrjaði í fullorðinsfræðslu vegna þess að hún kunni ekki að lesa eða skrifa og gat ekki reiknað út hvort hún var með hagnað eða tap af kleinusölunni sem hún stundaði. Ólæsið hamlaði henni á margan hátt því hana langaði að taka þátt í samfélaginu með virkum hætti. Hún útskrifaðist árið 2004 og hafði þá náð fullum tökum á lestri, skrift og einföldum reikningi. Hún getur nú reiknað út stöðu rekstursins sem nú felst í sölu á tómötum, klæðaskurði, hnetubakstri og framleiðslu ávaxtasafa. Að auki gegnir hún nú margvíslegum stöðum í samfélaginu og nefna má sem dæmi að hún er
„gjaldkeri stýrinefndar St Louis-grunnskólans, hún er gjaldkeri alnæmisnefndar Mjogo-þorps. Hún er aðstoðarforstýra Sænska samvinnusetursins sem vinnur að því að draga úr eyðingu skóga sem og að auka samfélagslegan sparnað og fjárfestingur, hún stýrir múslímska kvennafélaginu í Apaflóa og er aðstoðarforstýra Tikondane-ávaxtaframleiðsluklúbbsins.“
Sonur hennar er í hjúkrunarnámi, tvær dætranna hafa lokið menntaskóla og hinar tvær eru langt komnar með að ljúka grunnskólanámi. Það virðist því sannast sem sagt hefur verið að njóti kona menntunnar þá nýtur samfélagið menntunar hennar.

Íslendingar hafa lengi lagt skammarlega lítið til þróunarmála eða aðeins 0.32 prósent þegar mest var í stað þeirra 0.7 prósenta sem Sameinuðu þjóðirnar hafa farið fram á að iðnríki láti af hendi rakna.*** Nú þegar skera þarf niður í ríkisútgjöldum bitnar það auðvitað líka á Þróunarsamvinnustofnuninni og verkefnum hennar. Það verður því lítið til skiptanna næstu árin.**** Það má þó ekki gleyma því að hver króna skiptir máli og jafnvel verkefni sem virka svo smá — eins og að kenna einni konu að lesa, skrifa og reikna smávegis — geta haft ótrúlega mikil áhrif á líf þess einstaklings og á samfélagið allt því menntaður einstaklingur leggur hart að sér til að börn sín njóti líka menntunar og smám saman verður samfélagið og öll þjóðin betur sett en áður.

Utanríkisráðherra hefur með höndum þróunarmál og Össur Skarphéðinsson segir að í haust muni hann leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára áætlun um þátttöku Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Megi hún hljóta skjótari afgreiðslu og jákvæðari undirtektir en sú sem nú er helsta rifrildismálið, vatnalögin. Það væri þeim hollt sem vilja selja vatnið að kynna sér hve mikilvægt aðgengi að vatni er fyrir samfélag.

___
* Úr pistli Össurar: Á hverjum degi deyja um 24 þúsund börn yngri en fimm ára af völdum sjúkdóma og fátæktar víðs vegar um heiminn. Á tveggja vikna fresti sviptir skortur og örbirgð því fast að 350 þúsund lítil börn lífinu, eða fleiri en alla íbúa Íslands.
** Þetta hefur verið sagt í ýmsum myndum og eignað mörgum. Dæmi: Ef þú menntar konu þá menntarðu þjóð. Ef þú menntar karlmann menntarðu einstakling en ef þú menntar konu þá menntarðu samfélag. Ef þú menntar stúlku menntarðu fjölskyldu hennar o.s.frv. Merkingin er alltaf sú sama: með því að veita konu menntun þá gagnast það ekki bara henni heldur umhverfi hennar, þ.e. nærumhverfi og þjóðinni allri því konur sjá um uppeldið og hvetja börn sín af báðum kynjum til dáða.
*** Þetta er ein af glæstum arfleifðum áratuga yfirráðum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins á Íslandi; skítasmápeningur til nauðstaddra meðan landinn lifði í vellystingum. Og það fyrsta sem frjálshyggjandi hyski sagði eftir hrun var að nú værum við svo „fátæk“ að við mættum ekki láta krónu af hendi rakna til einhverra útlendinga sem okkur koma hvorteðer ekkert við. Bjakk, þvílíkt viðhorf.
**** Þróunarsamvinnu við Níkaragva og Sri Lanka hefur þegar verið hætt og í lok þessa árs dettur Namibía líka út. Eftir standa þá Mósambík, Úganda og Malaví.

Efnisorð: , , ,