föstudagur, júlí 16, 2010

Litli dýravinurinn

Enn er ég að hlusta á Andrarímur því þann ágæta þátt má enn finna á hlaðvarpi Ríkisútvarpsins. Þar las Guðmundur Andri upp stutta klausu sem heitir Dýranna meðhöndlan og hljómar svona:
Varla getum vér deyft hjá oss þá hugsjón, að fyrri en keðjan þrýtur við hásæti hins eilífa, hljóti enn þá að finnast þúsund lifandi verur, að baki hverra maðurinn stendur eins langt og rjúpan að baki veiðimannsins. Vei oss, ef þessir máttkari vildu fylgja því dæmi, er vér gefum þeim!

Þetta skrifaði Jónas Hallgrímsson. Rjúpan var honum hugfólgin eins og sjá má í ljóðinu Óhræsið en ekki síður miskunnarleysi mannanna. Og í þessari klausu veltir hann fyrir sér ef við mennirnir þyrftum að berjast gegn ofureflinu eins og rjúpan og hvort okkur þætti þá leikurinn sanngjarn.

Fleiri skáld hafa haft velferð dýranna (og atferli mannanna) í huga og af þeim sem skrifuðu svo að skar í barnshjartað voru Þorsteinn Erlingsson, höfundur Litla dýravinarins, og Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Sá síðarnefndi ber einn og óstuddur ábyrgð á því að mér hefur alltaf verið heldur illa við presta en þótt vænt um hrafninn.

Ekki hef ég reynt að feta í fótspor skáldanna nema að því leytinu að sýna hug minn til dýranna í verki og reyna að koma fólki í skilning um að dýr séu ekki til að drepa, meiða eða til að nota sem leikföng. Mér svíður grimmd þeirra sem stunda skotveiðar sér til skemmtunar, berja hestana og kasta gæludýrum útá guð og gaddinn þegar þau eru ekki nógu krúttleg lengur eða verða of frek til fóðursins. Mig svíður líka skilningsleysi þeirra sem yppta bara öxlum yfir svona framferði eða eru á móti gæludýrum eða jafnvel dýrum almennt. Ég skil reyndar bara allsekki fólk sem ekki eru dýravinir.

Sjálfri þykir mér vænt um allar skepnur, nema karlmenn.

Efnisorð: , ,