sunnudagur, júlí 11, 2010

Freyja fælir feminista frá

Ég hef fylgst með umræðum um Freyjuauglýsingu undanfarna daga en ekki vitað um hvað málið snerist.* En nú hef ég loks séð blogg Tinnu þar sem auglýsingin er sýnd og bréfið sem sent var til sælgætisgerðarinnar Freyju er birt, bréfið sem varð til þess að auglýsingin var dregin til baka. Húrra fyrir því.

Mér finnst samt merkilegt að Freyja skuli hafa látið gera þessa auglýsingu. Lærðu menn þar á bæ ekkert af Freyjudraums-auglýsingunni hér um árið? Ég sé það á athugasemdum*** við auglýsinga- og bréfabirtinguna á bloggi Tinnu að það eru fleiri en ég sem hætti að kaupa Freyjusælgæti í framhaldi af þeirri auglýsingaherferð. Ætli fækkun viðskiptavina sé alltaf helsta markmiðið hjá Freyju eða er álitið að öll umfjöllun sé betri en engin? Þá misreikna þeir okkur feministana.

___
* Líklega hefur auglýsingin birst í Fréttablaðinu þessa daga sem ég sá það ekki. Svo skilst mér líka að hún hafi verið í Sjónvarpinu en á það hef ég ekki horft vegna þess að í því hefur bara verið fótbolti. Já, og áfengisauglýsingar. Það er nú líklega efni í sérfærslu en ég getsvosem sagt mína skoðun á þeim í einni setningu: Nóg er nú áfengisbölið þó ríkisfjölmiðill græði ekki peninga á að leyfa framleiðendum og dreifingaraðilum áfengis að birta auglýsingar um áfengisdrykkju einsog hún sé ekkert skaðleg en bara skemmtileg.

**Ég get því miður ekki hætt að versla við Freyju núna því fyrir mörgum árum hætti ég að kaupa sælgæti frá þeimvegna auglýsingarinnar þar sem það að vera meðal naktra kvenlíkama var sagt vera „góður draumur“. Tek það þó fram að ég er ekki Ásgerður sem geri svipaða athugasemd við færslu Tinnu.

*** Ein athugasemdin vakti athygli mína. Þar er á ferð einhver „Katrín S“ sem er lítt hrifin af framtaki Tinnu og segir: „Ósköp lifirðu vernduðu lífi og viðkvæmu ef þú telur þetta það besta sem þú getur eytt tíma þínum í. Þessi auglýsing var eins meinleysisleg og hægt er að hugsa sér ... ... en sumir virðast líta á sig sem sjálfskipaða löggæslumenn, hvers takmark sé að sjúga alla gleði úr umhverfinu. Hér á mínum vinnustað (sem er fjölmennur) er allavega ekki fagnað með þér; frekar að það sé hlegið að þér fyrir barnaskapinn!“ Mér þykir þetta fróðlegt því „Katrín S“ vísar á síðu Reykjavíkurborgar í athugasemdinni. En samkvæmt starfsmannaskrá þar eru þrjár konur sem heita Katrín S þar (s-ið er ýmist millinafn eða föðurnafn). Þær gegna þessum störfum: verkefnastjóri hjá velferðarsviði, sálfræðingur hjá þjónustumiðstöð Vesturbæjar og sú síðasta er daggæsluráðgjafi í þjónustumiðstöð Breiðholts. Samkvæmt orðum „Katrínar S“ er á einhverjum þessara vinnustaða hlegið að feministum fyrir barnaskap þegar þær gagnrýna auglýsingar um kosti þess að vera hrein mey. Fróðlegt væri að vita hvort „Katrín S“ sé í rauninni einhver þessara starfsmanna (kannski sálfræðingurinn?!), mig grunar reyndar ekki. Líklegra er að þetta sé Jakob Bjarnar eða einhver álíka sjálfskipaður (eða launaður) gæslumaður karlveldisins, a.m.k. einn frjálshyggjuguttanna sem eru svo ákveðnir í að konur séu markaðsvara.

Efnisorð: , ,