sunnudagur, ágúst 01, 2010

Nýríki Nonni

Orðabókaskýringin á að vera nýríkur er að hafa skyndilega orðið auðugur og berast mikið á. Hér á landi voru aðstæður þannig að kannski þyrfti að bæta við aukaskýringu: Sá sem heldur að hann sé auðugur vegna gríðarlegrar lántöku — hvort sem það er kúlulán, 100% íbúðakaupalán, myntkörfulán eða svimandi yfirdráttur — og hegðar sér því eins og hann hafi fullar hendur fjár og berst mikið á.*

Fólk sem hafði venjuleg laun og var í venjulegu starfi, eða ágætu starfi með ágæt laun, virtist allt fram til október 2008 vera í samkeppni við Jón Ásgeir, Björgólfana og þá alla hina sem sannarlega voru nýríkir, þó auðæfin hafi verið illa fengin og hluti þeirra e.t.v. eingöngu til sem bókhaldsbrella. En stór hluti almennings á Íslandi linnti ekki látum fyrr en hann fór næstum jafn oft til útlanda og þeir sem áttu einkaþotu, keypti sumarbústað og fellihýsi eða hjólhýsi, varð nauðsynlega að búa í einbýlishúsi og hlóð utan á það palli og nuddpottur var þar auðvitað og gasgrill, hvað annað. Farsímarnir endurnýjaðir eins oft og tískusýningar eru haldnar í París og bílaflotinn á hlaðinu var í stöðugri samkeppni við Bentley, Aston Martin, Mercedes Benz og jeppaflota þeirra sem leiddu þjóðina til glötunar.

Já, og vel á minnst, flatskjáirnir. Það voru ekki þeir sem gerðu þjóðina gjaldþrota, en þeir eru einskonar táknmynd þessar græðgi sem allir virtust haldnir; allir keyptu flatskjá (auk alls þess sem að framan er talið). Þessi samkeppni um flottustu húsin, flottustu bílana, dýrustu brúðkaupin, frumlegustu sumarfríin á mest framandi stöðunum sem stór hluti þjóðarinnar var í innbyrðis, þekkist víst ekki meðal siðaðra þjóða þar sem þykir dyggð að berast ekki á, enda stendur siðmenning víðast hvar svo styrkum fótum að fólk hefur ekki (einstaklingar jú, en ekki heilu þjóðirnar) þörf fyrir að sýna ríkidæmi sitt (lesist: skuldastöðu) með svo áberandi hætti.

Flottræfilsháttur Íslendinga er líka áberandi merki um þá minnimáttarkennd sem hefur þjáð okkur sem erum svona nýskriðin úr moldarkofunum og viljum endilega láta vita að við séum þjóð meðal þjóða. Samt auðvitað ekki hvaða þjóða sem er, t.d. ekki Norðurlandanna enda stöndum við þeim framar á flestum sviðum.

Það má vera að það séu ekki margir Íslendingar sem voru í raun nýríkir, þarna um tíma, en restin hegðaði sér sannarlega þannig. Það er fólkið sem ætlar nú í hrönnum að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, enda er þessi vinstri stjórn ekkert nema leiðindin sérstaklega ef miðað er við gósentíðina fram að hruni. Þá var nú gott að lifa og gaman að eyða peningum. Líka þeim sem ekki voru til. Hugsunarháttur græðginnar var líka hugsunarhátturinn sem fékk fólk til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, og Sjálfstæðisflokkurinn var sá sem með hugmyndafræði sinni, einkavinavæðingu og annarri spillingu, auk umtalsverðar vanhæfni til að stýra efnahagsmálum sem olli hruninu. Þeir og fylgismenn þeirra.


____
* Enn mætti bæta við skýringu sem segði: Eftir október 2008 er marga þá nýríku skv. þessari skilgreiningu helst að finna í hópi þeirra sem í algjöru sjokki hættu að kjósa Sjálfstæðisflokkinn en áttuðu sig svo á sér til mikillar furðu að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna myndi ekki fella niður allar skuldirnar (djös svekkelsi) og hyggjast því kjósa Sjálfstæðisflokkinn aftur.

Efnisorð: , ,