miðvikudagur, ágúst 25, 2010

Litli sóknarpresturinn

Ég var nánast með yfirlýsingar um það hérna fyrir einsog tveimur færslum síðan að ég ætlaði ekki að skipta mér af uppnáminu innan kirkjunnar því mér kæmi það ekki við og það hreyfði ekki við mér. En svo get ég auðvitað ekki orða bundist og ætla þó að segja fátt. Vil bara benda á stórgóða samantekt Hörpu Hreinsdóttur um ástandið innan kirkjunnar árið 1996, ásakanirnar á hendur þáverandi biskupi og hvernig núverandi biskup átti þar hlut að máli, sá hinn sami og nú þvælir fram og til baka með afstöðu sína en er margorðinn uppvís að þvi að reyna að þagga málið niður. Illugi Jökulsson ræddi um þetta í Kastljósi kvöldsins, hann var þar ekki eins beittur og í pistlinum á bloggi sínu. Illugi staldrar þar meðal annars við orð Karls í viðtali í Fréttablaðinu sem urðu einmitt til þess að augu mín stóðu á stilkum yfir hræsninni. Karl sagðist nefnilega ekki hafa haft nein áhrif á árið 1996 því hann hafi þá bara verið lítill sóknarprestur.

Um þessa tilraun Karls til að skjóta sér undan ábyrgð á málinu segir Illugi:

„En fyrst þegar hér er komið sögu í viðtalinu í Fréttablaðinu, þá bítur Karl Sigurbjörnsson hausinn af skömminni, þegar hann freistar þess að útskýra hvað hann hafi lítið vitað og lítið getað gert.

"Ég var bara lítill sóknarprestur," segir hann.

Drottinn minn dýri! Ef Karl Sigurbjörnsson var eitthvað árið 1996, þá var það EKKI "bara lítill sóknarprestur".

Karl Sigurbjörnsson var þá sóknarprestur í Hallgrímskirkju. Það er nú í fyrsta lagi eitt mesta virðingarembætti kirkjunnar í Reykjavík. Hann var þar fyrir utan sonur Sigurbjörns Einarssonar biskups sem hafði að vísu látið af embætti fyrir aldurs sakir árið 1981, en hafði ennþá gríðarlegt áhrifavald innan kirkjunnar.

Sigurbjörn var kennimaður ágætur og mikil virðing fyrir honum borin meðal almennings, en hann var líka strangur valdamaður innan kirkjunnar. Og þar gerðist áreiðanlega fátt án þess að hann vissi af því. Enda hefur komið í ljós að Sigurbirni var sagt frá ásökunum á hendur Ólafi Skúlasyni á sínum tíma, en kaus að gera ekkert með þær upplýsingar.

Sigurbjörn átti þrjá syni sem urðu prestar innan íslensku ríkiskirkjunnar, og það vissu allir frá því skömmu eftir 1980 að Karl Sigurbjörnsson yrði fulltrúi ættarinnar í biskupskjöri þegar fram liðu stundir. Ekki einu sinni reyna að neita því! Þegar komið var fram á árið 1996 - þegar mál Ólafs Skúlasonar kom upp - þá var svo komið að það var næsta víst að Karl yrði næsti biskup.

Það var kannski ekki alveg 100 prósent víst, en svona 95.

Karl var því eins fjarri því að vera "bara lítill sóknarprestur" og hugsast gat. Hann var ættarlaukur mestu valdaættar ríkiskirkjunnar - og fulltrúi valdablokkar sem allir vissu að myndi seilast aftur til valda fyrr en síðar.


Illugi rekur, eins og Harpa, þöggunaraðferðir Karls biskups, og fer fram á það, eins og hann gerði reyndar líka í Kastljósinu, að Karl segi af sér.* Margt fólk krafðist afsagnar Ólafs biskups á sínum tíma en hann tregðaðist við og hætti svo á eigin forsendum og sárnaði mörgu kirkjunnar fólki að hann skyldi ekki sjá sóma sinn í að víkja til þess að koma á friði heldur léti eigið egó í fyrsta sæti.**

Núverandi biskup þykist auðvitað ekkert hafa stórt egó heldur skýlir sér bakvið svo brotna sjálfsmynd að við eigum helst að vorkenna honum, aumingja litla sóknarprestinum sem nú standa öll spjót á.

Hann hættir örugglega ekkert en það verður fróðlegt að sjá hvort fylgismenn hans reyna enn að bera í bætifláka fyrir hann, eins og áður var gert í hinu ógeðslega máli fyrirrennara hans.

___
* Hlutverk Karls í að reyna að þagga niður í konunum var öllum ljóst árið 1996 og tómt mál um að tala að reyna að ljúga sig útúr því núna, sama hvað margar (misvísandi) yfirlýsingar hann gefur út dag hvern.
** Þetta ég-hætti-ekki þrjóskukast var svo endurtekið síðar af Seðlabankastjóra og ýmsum pólitíkusum sem, eins og Steinunn Valdís Óskarsdóttir benti á, láta stoltið þvælast fyrir sér.

Efnisorð: