sunnudagur, ágúst 22, 2010

Hér glataðist engin virðing

Rétt eins og ég var alin upp í að treysta lögreglunni var ég alin upp í kristinni trú. Ég var skírð og fermd, mér var kennt að biðja bænirnar mínar og ég fór meira segja nokkrum sinnum í sunnudagaskóla og fékk hinar eftirsóttu biblíumyndir. Foreldrar mínir eru þó ekkert sérlega trúaðir heldur voru bara einfaldlega að gera það sem allir hinir foreldrarnir gerðu og tíðkaðist þá og tíðkast sennilega enn á flestum heimilum þar sem meðal-Íslendingurinn elur upp börn sín.

Einhverntímann heyrði ég svo um fólk sem ekki trúði á guð og fannst það afar forvitnileg afstaða. Ég fór þá að skoða mína eigin „barnatrú“ og las t.a.m. biblíuna spjaldanna á milli* og komst að mjög afgerandi niðurstöðu: Það er ekkert í biblíunni sem rökstyður að til sé guð. Síðan hef ég lesið ýmsar aðrar bækur um trú og trúarbrögð og sannfærist alltaf betur um að guðir, goð og trú á slík fyrirbæri var skýring sem menn bjuggu sér til vegna þess að þeir voru að reyna að skilja uppruna sinn (þ.e. hvernig heimurinn varð til og mennirnir í honum), hvernig náttúruöflin virkuðu og til að sætta sig við dauðann.** En nú er ég komin útfyrir efnið. Ég ætlaði í stuttu máli að útskýra afhverju ég er ekki trúuð, er ekki kristin og sagði mig úr þjóðkirkjunni þegar ég hafði aldur til, því ég er ósammála grunnhugmyndinni.

Vegna þess að trú og kirkja skipta mig engu máli, æsi ég mig ekki yfir nýjum og gömlum afhjúpunum á brotum presta og yfirhylmingum kirkjunnar en annað er líklega hægt að segja um það fólk sem er í þjóðkirkjunni af trúarástæðum.*** Mér þykja kynferðisbrotamál auðvitað alltaf ógeðsleg og óréttlætanleg (og þarf varla að taka það fram að ég studdi konurnar sem ásökuðu Ólaf Skúlason á sínum tíma) en þjóðkirkjan er ekki að valda mér neinum vonbrigðum því ég hef í raun aldrei litið á hana sem eitthvað sem skipti máli í samfélaginu.**** Að því leytinu er afstaða mín til kirkjunnar og lögreglunnar gjörólík; kirkjan skiptir engu máli í mínu lífi en ég gæti átt líf mitt undir að lögreglan bregðist rétt við.

____
* Það er reyndar lygi að ég hafi lesið alla biblíuna; ég sleppti Sálmunum.
** Dauðinn var gerður léttbærari með því að ímynda sér líf handan dauðans eða einhverkonar upprisu hérna megin.
*** Fólk ætti auðvitað frekar að leita til sálfræðinga, geðlækna og annarra sérhæfðra ráðgjafa en ekki presta, en það fólk sem þó leitar til kirkjunnar af einhverjum ástæðum á auðvitað rétt á að því sé trúað segi það frá því að brotið hafi verið á sér. Það ætti ekki að ýta slíkum ásökunum útaf borðinu bara útaf því að það er prestur sem er ásakaður. En líklega er það rétt sem Illugi Jökulsson segir, að vegna þess að fólk ber virðingu fyrir prestum er ólíklegra að það leggi fram kæru.
**** Aftur lýg ég; ég lít svo á að trúarstofnanir séu til skaða í samfélaginu. Fyrir ellefta september 2001 fannst mér þær meinlausar en eftir trúarofstækið sem síðan hefur verið áberandi og eitrað mannlíf um allan hnöttinn, er mér meinilla við alla trúarsöfnuði, hvaða nafni sem þeir nefnast.

Efnisorð: , ,