laugardagur, september 04, 2010

Skrá í eða skrá úr

Arnaldur Máni Finnsson guðfræðinemi skrifar grein í Fréttablaðið í dag um úrsagnir úr þjóðkirkjunni. Hann vill ekki segja sig úr kirkjunni vegna biskupsmálsins því honum finnst að hún þurfi á „fólki með réttlætiskennd og sannfæringu að halda“. Það eru góð og gild rök og Arnaldi Mána að sjálfsögðu heimilt að vera áfram í kirkjunni til að reyna að laga hana innan frá.

Grein Arnalds Mána minnir mig á konu sem ég þekki og er fædd og uppalin í Ísrael. Fyrir nokkrum árum stóð hún frammi fyrir þeirri spurningu hvort hún ætti að flytjast frá landinu vegna framkomu ísraelskra stjórnvalda við Palestínumenn. Hún ræddi opinskátt þessar vangaveltur sínar eftir að móðir hennar lést þegar strætisvagn sem hún var farþegi í var sprengdur í loft upp. Þessi kona vildi ekki hefndaraðgerðir heldur að reynt yrði að sætta stríðandi aðila svo morðum og limlestingum linnti. Meira segja eftir morðið á móður hennar fannst henni óþægilegt að búa meðal fólks sem studdi aðgerðir gegn Palestínumönnum en fannst jafnframt að henni bæri siðferðileg skylda til að vera um kyrrt vegna þess að ísraelskt samfélag þyrfti á upplýstu, friðsömu og sáttfúsu fólki að halda. Niðurstaðan varð nú samt sú að hún fluttist úr landi.

Ég er ekki þarmeð að segja að Arnaldur Máni eða annað fólk eigi að segja sig úr þjóðkirkjunni, rökin fyrir að laga hana innanfrá eru góð og gild. En það fólk sem er nú stríðum straumum að segja sig úr kirkjunni er ekki endilega fólk sem hefur áhuga á að bæta kirkjuna innanfrá, eða bara vera í henni yfirhöfuð. Enda þótt biskupsmálið (bæði hið fyrra árið 1996 og hið síðara sem nú stendur yfir) hafi orðið til þess að margt fólk tók þá ákvörðun að segja sig úr þjóðkirkjunni* þá er það svo að margt fólk, sem hefði aldrei skráð sig í þessa kirkju sjálfviljugt, drífur sig að skrá sig úr henni úr því sem komið er.

Það er auðvitað fáránlegt að hvert einasta barn sem fæðist á Íslandi sé skráð í trúfélagið sem móðir þess er í. Hafi móðirin ekki sjálf gengið til liðs við annað trúfélag** en þjóðkirkjuna einhverntímann á lífsleiðinni — og ekki verið svo framtakssöm að skrá sig úr þjóðkirkjunni sjálf — þá bætist þjóðkirkjunni nýr félagi sem hefur enga trúarskoðun (enda hvítvoðungur) og enga hugmynd um félagsaðild sína fyrr en mörgum mörgum árum síðar. Þar sem hvarflar að fáum börnum að efast um lífstíl eða skoðanir foreldra sinna þá gera börnin yfirleitt heldur ekki athugasemdir við að vera í þjóðkirkjunni og halda áfram að vera skráðir félagar langt fram á fullorðinsár, og sumum dettur aldrei í hug að skrá sig úr henni, ekki vegna trúarsannfæringar sem fer svona vel við stefnu hinnar evangelísku lútersku kirkju heldur af sinnuleysi.

Þetta er ástæða þess að u.þ.b. 80% allra Íslendinga eru í þjóðkirkjunni, ekki vegna þess að allt þetta fólk sé svona trúað eða hafi áhuga á „lýðræðislegu safnaðarstarfi“. Það væri fróðlegt að vita meðlimafjölda í þessu tiltekna trúfélagi sem nú heitir þjóðkirkjan ef fólk þyrfti að skrá sig sjálft í hana og vera orðið átján ára til að stíga það skref.

Þangað til þessar furðulegu skylduskráningar verða lagðar af er eina úrræðið að skrá sig úr þjóðkirkjunni. Það er talsvert minna mál en að flytjast búferlum frá landi þar sem maður fæðist af tilviljun.

___
* Sumt af því fólki sem segir sig úr þjóðkirkjunni af þessu tilefni hefur ekki áður áttað sig á hve lítið mál það er að segja sig úr henni, en nú benda nokkrir ötulir talsmenn úrsagnar upplýsingar á leiðir til þess á hverri bloggsíðunni (í athugasemdum) á fætur annarri, svo oft reyndar að það er löngu orðið þreytandi.
** Barn sem fæðist móður í öðru trúfélagi, t.d. Krossinum, er að sama skapi skráð í Krossinn það sem eftir er ef það skráir sig ekki úr honum aftur. Ekki er það nú skárra!

Viðbót: Sverrir Jakobsson skrifar ágæta grein um skráningu ungbarna í þjóðkirkjuna og önnur trúfélög og segir hana ekki standast stjórnarskrárákvæði um félagafrelsi.

Efnisorð: ,