föstudagur, september 03, 2010

Raddirnar í útvarpinu leiðrétta mig

Ég er ein þeirra sem hiklaust gagnrýni fólk fyrir lélegt málfar og hneykslast mjög á hnignandi íslenskukunnáttu fjölmiðlafólks. Veit þó uppá mig skömmina; að ég er lítið skárri enda þó ég reyni að þykjast betri en ég er. Um daginn var ég að nöldra um málfar í þessum heimur-versnandi-fer tóni og gerði þá að umtalsefni það sem mér heyrist vera nýtt orðalag um sjálfskapaðan dauðdaga; „að taka eigið líf.“ Nú tyggur þetta hver eftir öðrum en ég er eiginlega viss um að þetta orðalag var aldrei notað hér áður. Og í sjálfumgleði minni gagnrýndi ég þessa hráþýðingu úr útlensku og bætti við, sárhneyksluð: „Hvað varð um að segja að einhver hafi framið sjálfsmorð?“ — fullviss um að það væri rétt mál.

Þar sem ég er svo að sinna húsmóðurskyldum mínum og hlusta á Víðsjá á meðan, les ekki Pétur Gunnarsson eftirfarandi uppúr bók sinni Persónum og leikendum:

Hlusta mikið á daglegt mál í útvarpinu. Undanfarið hafði verið mikið um sjálfsmorð í blöðunum og umsjónarmaðurinn lagði út af orðalaginu „að fremja sjálfsmorð“, sem hann sagði að væri danska og enska þótt orðin væru íslensk:

Á íslenzku styttum við okkur aldur, fyrirförum okkur, föllum fyrir eigin hendi, verðum sjálfum okkur að aldurtila eða gröndum okkur. Ábyrgð þeirra er mikil sem „fremja sjálfsmorð“ þegar íslenzk tunga býr yfir slíkri auðlegð sömu merkingar. Lifið heil.

Efnisorð: