miðvikudagur, september 22, 2010

Hluti fyrir heild

Ég hef reynt að forðast uppnámið sem hefur verið í kringum þingmannanefndina og Landsdómsumræðuna. Sé auðvitað umræðu hér og þar og er stundum alveg sammála en hef forðast að setja mig inní umræðuna á þingi. Hef ekki kveikt á fréttatímum, hvað þá beinum útsendingum úr alþingi, hef bara ekki geð á því.

Vil samt koma þessu að; hvort sem rétt eða rangt er að draga Ingibjörgu Sólrúnu, Árna Matt og Björgvin útilokaða Sigurðsson fyrir dóm eða ekki — og eins og það er nú svekkjandi að Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson munu sleppa við að vera ákærðir fyrir sama dómi fyrir margvísleg afglöp en þau helst að hafa selt bankana þessum vitleysingum sem keyrðu þá í þrot —  þá er það algert lágmark að Geir H. Haarde verði ákærður fyrir Landsdómi.

Geir H. Haarde kom ekki (öfugt við Samfylkingarráðherrana) nýr að borðinu, hann var ekki skyndilega í ríkisstjórn þar sem var eða var ekki of seint að grípa í taumana. Hann var reyndar utanríkisráðherra í u.þ.b. eitt ár framaðþví að hann varð forsætisráðherra en allt frá 1998 hafði hann verið fjármálaráðherra í ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar. Frá 1999-2005 var hann að auki varaformaður Sjálfstæðisflokksins áður en hann varð formaður, semsagt í ágætis kallfæri við flokkinn sem stjórnaði landinu og formann hans, Davíð Oddsson. En þetta er mikilvægast: Geir H. Haarde var fjármálaráðherra þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður og þegar bankarnir voru seldir. Hann er bullandi sekur um þátttöku í því samsæri og þeirri óhæfu að sleppa „hinni frjálsu hönd markaðarins“ lausri á þjóðina. Það er því ekkert nema sanngjarnt að a.m.k. einn þeirra sem að þeim gjörningi verði dreginn fyrir dóm og þar sem Davíð og Halldór virðast eiga a sleppa þá er Geir staðgengill þeirra.

Landsdómur er reyndar stappfullur af Hæstaréttardómurum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur plantað þar inn undanfarna áratugi, og mun því að öllum líkindum sýkna allt liðið verði Geir ákærður ásamt Ingibjörgu, Árna Matt og Björgvini G., en Geir H. Haarde þarf samt helst af öllum að sitja þar á sakamannabekk.

Viðbót: Eins og talað út úr mínu hjarta: Geir H. Haarde verður dreginn fyrir dóm!!

Efnisorð: , ,