föstudagur, september 10, 2010

Horfa allir karlmenn á klám eða ekki?

Það sem gerðist eftir hin óheppilegu ummæli Jóns Gnarrs við franskan fjölmiðil þar sem hann sagðist aðallega skoða klám á netinu* var áhugavert. Bloggarar en þó aðallega þeir sem stunda að skrifa athugasemdir við fréttir og blogg annarra, ruddust fram hver á fætur öðrum til að lýsa yfir ánægju sinni. Hér á ég við karlmenn. Heilu hrúgurnar af karlmönnum sögðu að Jón Gnarr væri maður að meiri að viðurkenna þetta því ALLIR karlmenn skoði klám.** Sumir sögðu þetta merki þess hve heiðarlegur hann væri og laus við hræsni.

Nú veit ég ekki hvor endinn á heiðarlega og hræsnislausa Jóni Gnarr sneri upp þegar hann lýsti yfir að hann væri á móti klámi — það sem hann sagði í viðtali við Vísi var á hinum feminískustu nótum þar sem hann talaði gegn klámi og sagði það dýrslegt og ógeðfellt — og að hann hefði allsekki meint það sem franska viðtalið lét líta út fyrir. Fengu þar feministar og Femínistafélag Íslands talsverða uppreisn æru því ekki er amalegt þegar slíkur æðstistrumpur leggur málstaðnum lið.

En nú ber svo við að karlmenn stíga ekki fram hver á fætur öðrum og segja að þeir hafi hlaupið á sig og að þeir þurfi annaðhvort að endurskoða afstöðu sína til kláms eða til Jóns — þeir sjá ekkert rangt við að halda klámfýsn sinni fram sem eðlilegri afstöðu til kynlífs, kvenna eða hlutverks kynjanna — nei, þeir þykjast aldrei hafa verið sannfærðir um afstöðu Jóns Gnarr þegar í ljós hefur komið að hann ætlar ekkert að vera talsmaður þeirra.** Hvað gera þeir í staðinn? Jú, þeir kasta sér útí umræður um að uppáhaldsóvinur þeirra númer eitt, Sóley Tómasdóttir,*** hafi vogað sér að tala um málið í borgarstjórn í stað þess að tala um allt hitt sem er að hrjá samfélagið. Þeir láta eins og þeir hafi ekki opinberað sjúkan hugsunarhátt sinn í umræðu sem á endanum snerist gegn þeim sjálfum.

Hvernig stendur annars á því að ef ég segi að allir karlmenn horfi á klám þá er ég öfgasinnaður feministi og á allt illt skilið fyrir þvílíka og aðra eins staðhæfingu en ef karlmenn í bunkum tilkynna að allir karlmenn horfi á klám***** þá er það bara meðtekið af hinum í rólegheitum og þykir sjálfsagt? Þegar ég eða aðrir feministar 'alhæfi' svona þá eru alltaf einhverjir (konur aðallega en stundum karlar) sem skammast yfir fordómum í garð karla og segja að það megi ekki gera þeim rangt til, en slíkar raddir hafa vægast sagt ekki verið háværar í umræðum síðustu daga. Líklega vegna þess að það er talið líklegra að hægt sé að þagga niðrí einhverjum kéllingum en engum dettur í hug að nokkur leið sé til að hægt sé að þagga niður í (klámsjúkum) karlmönnum.
___
* Franski blaðamaðurinn beitti DV töktum við að láta Jón Gnarr koma verr út en efni stóðu til, ef marka má það sem Jón sagði sjálfur síðar, að hann hefði strax sagt að hann væri að grínast. Jón Gnarr verður þó að átta sig á því að sumt bara segir maður ekki við erlenda fjölmiðla sem borgarstjóri höfuðborgarinnar.
** Margir karlmannanna komu meira segja fram undir eigin nafni til tilbreytingar, það er líklega vegna þess að þeir litu svo á — eins og Sóley Tómasdóttir bendir réttilega á — að þeim þótti Jón hafa „normalíserað“ klámið, þ.e. gert það að nota klám svo sjálfsagt að nú væri jákvætt að vera einn þeirra sem horfir á klám.
*** Sumir héldu því reyndar skyndilega fram að Jón hefði verið að grínast og fóru að ræða húmorsleysi feminista.
**** Sóley var auðvitað skotspænir umræðunnar um meinta klámfýsn borgarstjórans og þröngsýni feminista yfirleitt en þeim leiðist það ekki karlmönnunum að ræða persónu Sóleyjar í hörgul og alltaf á sérlega ógeðfelldan hátt.
***** Óli Tynes, sérlegur fulltrúi karlrembunnar á Vísi, skrifaði frétt með fyrirsögninni „Allir karlmenn horfa á klám (víst)“ og enginn deplaði auga.

Efnisorð: , , , ,