sunnudagur, september 12, 2010

Álver ≠ fátækt

Ég gladdist mjög yfir greininni hans Andra Snæs um land hinna klikkuðu karlmanna. Ekki bara vegna þess að hann notaði „karlar sem hata konur“ sem millifyrirsögn og benti á hvernig karlar ráðast gegn konum sem ganga gegn heimssýn þeirra eða vegna þess hve hann skaut á miðaldra karlmenn fyrir að hegða sér á óábyrgan hátt*, heldur aðallega vegna þess hve vandlega hann afhjúpar stóriðjugeðveikina og virkjanaklikkunina. Það hefur hann auðvitað áður gert í bókinni og síðar kvikmyndinni Draumalandið, en eins og Andri Snær bendir á, er nú uppi sú stemning í samfélaginu (sérstaklega meðal karla) að það þurfi að hrúga upp álverum útum allt og virkja og kreista orku útúr náttúrunni — meira segja þó að búið sé að virkja fimm sinnum meira en í öðrum löndum.

Í sama blaði er leiðari Ólafs Þ. Stephensen ritstjóra þar sem hann — eftir að hafa talað af sæmilega skynsamlegu viti um fátækt — segir að eina ráðið til að vinna bug á fátækt sé að reisa álver í Helguvík** og hleypa vafasömum skúffufyrirtækjum að orkuveitum***, og svo auðvitað að viðhalda kvótakerfinu í þágu LÍÚ.**** Með öllum þunga sínum sem ritstjóri mest lesna blaðs á Íslandi segir hann: „Þaðan koma verðmætin til að útrýma fátækt.“

Þetta eru mikil tíðindi að Ólafur Stephensen hefur fundið lausnina á því hvernig útrýma má fátækt og mæli ég með því að utanríkisráðherra kynni þessa allsherjarlausn á erlendum vettvangi. Lengi hefur verið vilji til að útrýma fátækt í heiminum en aðferðin ekki legið svona ljós fyrir hingað til.

Svo segir Andri Snær að meirihluti karlmanna á Íslandi sé hlynntur geðveiki, hvað á maðurinn við eiginlega?

___

* Úr grein Andra Snæs: „Skoðanakannanir gegnum árin hafa sýnt að stór hluti karlmanna á aldrinum 40 – 70 ára hefur verið hlynntir geðveikinni – að tvöfalda og tvöfalda svo aftur. Mesti vandinn er meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins þar sem mikill meirihluti karlmanna hefur jafnvel talið geðveikina forsendu þess að líf þrífist á Íslandi. Auk þess vill mikill meirihluti þeirra slaka á umhverfiskröfum og losa reglugerðir. Þarna liggur alvarlegasta pólitíska meinið á Íslandi. Ef allt væri eðlilegt ættu karlarnir okkar að vera íhaldssamir, hófsamir, áhættufælnir, trúaðir, sparsamir, reglufastir og jafnvel dálítið leiðinlegir. Þetta er mikilvægur hópur manna í hverju samfélagi. Þarna eru margir dæmigerðir heimilisfeður, þarna eru máttarstólpar samfélaga, íþróttafélaga, stjórnendur fyrirtækja, áhrifamenn, þingmenn og jafnvel blaðamenn og ritstjórar. Þetta eru menn sem hafa vald til að skilgreina hvað er eðlilegt og hvað er yfirgengilegt. Það er mjög alvarlegt þegar svona mikilvægur hópur bilast.“

** Úr grein Andra Snæs: „Álbræðslan í Helguvík er tákn um hvað Ísland er lélegt land og illa rekið. Álverið í Helguvík rís þrátt fyrir að skipulag liggi ekki fyrir og ekki orkuöflun heldur. Gott ef mengunarkvótann vantar ekki líka. Álbræðslan í Helguvík er tákn um hverstu veik stjórnsýslan er í landinu, hvað fagmennska og langtímahugsun er í miklum molum og hvernig fjölmiðlar nánast hvetja til lögbrota í fyrirsögnum.“ Og síðar: „Orkuveita Reykjavíkur er núna með milljarða á lager af vannýttum túrbínum sem voru keyptar fyrir Norðurál í Helguvík áður en búið var að skipuleggja eða samþykkja línuleiðina. Borgarbúar þurfa að borga niður lánið. Forsenda álversins er að OR fái að virkja við Bitru og Hverahlíð. Það er hins vegar ekki ljóst hvort íbúar í Hveragerði vilji taka þátt í tilraun um áhrif brennisteinsmengunar á lýðheilsu. Forsenda álversins er líka sú að HS Orka fái Krýsuvík og Eldvörp og að Landsvirkjun láti tilleiðast og setji Þjórsá í púkkið. Þannig reisa opinberir aðilar flókna spilaborg þar sem saman fara áhætta, skuldir og skuldbindingar sem falla ef aðeins eitt spilið fellur. Þannig er búið að binda hendur næstu borgarstjórna og efna í brálæðislegt framkvæmdafyllerí á mikilvægum svæðum, allt fyrir eitt fyrirtæki sem vantar flest leyfin.“

*** Úr grein Andra Snæs: „Magma Energy er búið að auglýsa að þeir ætli að auka framleiðslu HS orku úr 175 megavöttum upp í rúm 400 MW vegna þess að þeir virðast telja sjálfsagt að helstu orkulindirnar á öllu Reykjanesi verði einkavæddar og afhentar Magma. Verkefnafjármögnun heitir það víst núna, ekki einkavæðing.“

****Úr grein Andra Snæs: „Við erum nú þegar með allt sem nútímasamfélag þarfnast. Það þarf bara að sinna því sem við höfum þegar byggt upp, fá arð af því sem þegar hefur verið virkjað og fara betur með það sem þegar fiskast.“

Efnisorð: , , , ,