þriðjudagur, október 19, 2010

Vonda fólkið í mannréttindaráði

Það er skemmtilegt að fylgjast með hasarnum sem orðið hefur vegna tillögu mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar um að girða fyrir heimsóknir presta í leikskóla og grunnskóla og að börn séu ekki send í kirkjur eða kirkjustarf á skólatíma. Fréttablaðsleiðari gærdagsins var eins og í kirkjulegu íhaldsmálgagni og bloggsíður presta og trúmanna eru uppfullar af söngnum um að menningu, samheldni (!) og framtíð þjóðarinnar sé stefnt í hættu.

Í morgun var svo í þessu sama kristilega íhaldsmálgagni viðtal við prest og formenn mannréttindaráðs og velferðarráðs. Þar var einnig yfirlýsing frá SAMFOK samtökum foreldra grunnskólabarna í Reykjavík þar sem segir:
„Stjórn SAMFOK telur að svo stöddu hvorki ljóst að framkomnar tillögur endurspegli vilja meirihluta foreldra né að ákvæði stjórnarskrár kalli á þær.“


Mér þykir athyglisvert að SAMFOK vísi í stjórnarskrána því nú stendur til að endurskoða hana frá A-Ö. Ég hef undanfarið verið að lesa mér til um frambjóðendur til stjórnlagaþings (eða reyndi það framanaf en nú eru víst komin um 500 framboð og mér hefur ekki tekist að halda í við fjölgunina) en í fljótu bragði sýnist mér ellefu manns af 38* hafa aðskilnað ríkis og kirkju sem eitt af áhersluatriðum sínum.

En kannski er SAMFOK að óska eftir því að þessu verði breytt í stjórnarskrá? Vonandi verður það að veruleika.

Svo kom líka fram að:

„Stjórn SAMFOK telur mikilvægt að fram fari markviss umræða skólafólks og foreldra um þessi mál og telur brýnt að skoða vandlega rök með og á móti því að taka með þessum hætti ákvörðunarrétt um innra starf úr höndum skólayfirvalda og foreldra.“


Einhverstaðar var það orðað þannig að hver skóli fyrir sig — þ.e.a.s. hverfisskólinn — mætti bara ráða þessu. Á þá fólk að flytja úr hverfinu til að setja börnin í annan skóla og hvað ef allir nema þrír skólar ákveða að leyfa prestum að boða börnum trú á skólatíma? Verða þá trúlausir foreldrar og þeir sem aðhyllast aðra trú en þá kristnu bara gjöra svo vel og þyrpast allir þangað með börnin? Er sú aðskilnaðarstefna þá betri eða verri en sú að börn séu látin dúsa á bókasafninu meðan skólafélagar þeirra fara í kirkju eða fermingarfræðsluferðir útá land? Og hvað með leikskólana, eru börn trúlausra og ókristinna látin moka sand meðan hin börnin syngja sálma með prestinum sem röltir við með reglulegu millibili?

Ég veit að það flokkast undir aðför að menningu og æsku þessa lands en mér þykir eiginlega að eitt eigi yfir alla ganga og það sé það að öll börn hvort þau eru í leikskólum eða grunnskólum eigi að vera í friði fyrir trúboði. Foreldrarnir hljóta að vera fullfærir um að troða þessari ímynduðu vitleysu í kollinn á þeim utan skólatíma eða vakna á sunnudagsmorgnum til að fara með þeim í barnastarfið í kirkjunni. Óþarft að varpa þeirri stemningu yfir á aðra.

___
* Ég mun skoða alla frambjóðendur áður en yfir lýkur enda er ég vön að vanda val mitt við allar kosningar. En áður en seinasta holskefla frambjóðenda skall á voru komin 67 manns á lista. Þar af hafa 29 engar upplýsingar um stefnumál sín; ýmist kynnti fólk sjálft sig ítarlega og virtist treysta á persónutöfra sína sem frambjóðenda en sleppti að segja neitt meira eða þá að það vísaði á lokaðar facebook síður þar sem vonlaust er fyrir aðra en innvígða (og það eru þrátt fyrir allt ekki allir Íslendingar á facebook) að kynna sér hvaða erindi frambjóðendur telja sig hafa á stjórnlagaþingið. Af þeim 38 sem þó kynntu stefnumálin á læsilegan hátt voru semsé 11 með aðskilnað ríkis og kirkju á oddinum. Það fólk fékk umsvifalaust plús í kladdann hjá mér.

Efnisorð: , ,