miðvikudagur, október 20, 2010

Stjórnlagaþingskandídatar

Meira um stjórnlagaþing.

Bent hefur verið á — meðal annars í ágætri grein Sverris Jakobssonar — að hætta sé á að ríka og fræga fólkið eigi meiri möguleika á að verða kosið á stjórnlagaþingið. Það ríka vegna þess að það getur auglýst fyrir tvær milljónir og það fræga vegna þess að fólk þekkir það fyrir. Einhverra hluta vegna þykir mörgum kjósendum alltaf sem (brosmilt) andlit af skjánum sé ávísun á persónuleg heilindi, góðar gáfur eða gæfuleg stefnumál, enda þótt reynslan ætti að hafa sýnt okkur að svo er alls ekki alltaf. Dæmi: Gísli Marteinn, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigmundur Ernir og Sigurður Kári …

Á meðal þeirra sem ég voru komin á lista þegar ég síðast leit hann augum hefur ein af frambjóðendunum algera sérstöðu. Nánast öll frambjóðendanna lögðu mikla áherslu á lýðræðisumbætur ýmiskonar svosem skýrari skiptingu löggjafa og framkvæmdavalds, auðlindir í þjóðareign, og oft var nefnt að mannréttindakaflinn ætti að koma fremst í stjórnarskránni. En ekki hafa öll löngun til að fylgja fjöldanum og ein þeirra hefur þetta að markmiði: „Það er von mín að fólk muni sameinast í góðum og skynsamlegum samræðum um stjórnarskrána og mæti til leiks með það að markmiði að bæta hana og skýra en umbylta henni ekki.“ Með öðrum orðum: Kjósið mig, ég ætla ekki að gera neitt!

Augljóslega mun ég ekki veita þessari manneskju brautargengi* enda þótt hún eigi eflaust góðan möguleika á að komast á stjórnlagaþingið í krafti þess að vera fræg úr sjónvarpinu. Þá kemur líklega í ljós að mörg þeirra sem vilja setja ákvæði um að þjóðaratkvæðagreiðslur verði hafðar við ýmis tilefni hafi rangt fyrir sér, því Íslendingar eru of óupplýstir til að kunna að fara með atkvæði.

___
* Frjálshyggjufólk fær ekki mitt atkvæði. Karlmenn á listanum sem eru haldnir and-feminisma eða eru sérlega hlynntir klámi fá heldur ekki mitt atkvæði (suma kannast ég við fyrir en aðrir halda úti bloggsíðum sem fljótlegt er að skanna, meira segja hjá þeim sem þykjast sniðugir og loka þeim). Þá finnst mér ekki góð hugmynd að tekið verði upp persónukjör og mun það ráða úrslitum í einhverjum tilvikum, ekki bara útaf vinsældarkosningunum heldur útaf kynjahlutfallinu. Svo eru það öll þau sem hafa ekki einu sinni rænu á að hafa facebook síðuna sína opna, þau detta sjálfkrafa út.

Hér er gerð tilraun til að hafa yfirlit yfir öll þau sem bjóða sig fram.
— Og þetta framtak Svipunnar er enn betra því þarna koma áherslumál, hagsmunatengsl og starfsferill frambjóðenda fram. Ég mun sökkva mér ofaní þetta á næstunni!

Efnisorð: , , , ,