miðvikudagur, nóvember 10, 2010

Við þurfum ekki fleira fólk

Núverandi fjöldi jarðarbúa er kominn um sjö milljarðar og eykst stöðugt.* Árið 1960 voru um 3 milljarðar, 1974 var talan 4 milljarðar. Árið 1987 rúmlega 5 milljarðar, 1999 6milljarðar. Það bætist því við mannfjöldann u.þ.b. milljarður á hverjum áratug.

Af öllum þessum fjölda er stór hluti bláfátækur og margir þeirra sem deyja gefa upp öndina vegna hungurs og fátæktar. Gríðarlegur fjöldi er á faraldsfæti, flýr heimkynni sín vegna náttúrufars, styrjalda eða fátæktar, og bætist því við íbúatölu landa og borga þar sem margir eru á fleti fyrir.** Lausnin getur ekki bara verið sú að setja allar konur í Afríku og Asíu á pilluna, eða setja upp kínverskar fólksfjölgunarvarnir í þeim heimsálfum, heldur væri kannski nær fyrir okkur hér á norðurhjaranum að hætta að líta á það með svona mikilli velþóknun hvað við erum dugleg að bæta við fólki í heiminn.

Vestræn börn eru mun þurftafrekari en þau sem eru fædd annarstaðar í heiminum, ekki vegna húðlitar eða uppruna, heldur vegna þess að þau eru fædd inn í samfélög sem eru bundin á klafa kapítalismans og eru gerð að neytendum um leið og þau koma í heiminn.*** Mér er slétt sama um „örlög hvíta kynstofnsins“ í þessum efnum.

Ég sé ekki að mannkyninu sem heild sé neinn greiði gerður að það gangi af sér dauðu með ljóshært fólk í broddi fylkingar; en ætli það að lifa áfram án þess að stúta jörðinni og leggjast í mannskæð stríð og útrýmingar á öðrum „kynstofnum“ þarf að gera ráð fyrir að framtíðin sé ekkert síður fólgin í höndum fólks sem getur rakið ættir sínar útfyrir landamæri vestrænna ríkja, hvernig svosem húðlitur þess er.

Ekki þarf að hvetja konur til barneigna nema síður sé.

___
* Mannfjöldi skv. tölum hér þegar ég var að skrifa pistilinn: 7.059.649.400. Wikipedia segir reyndar 6,880,596,091 og að við náum 7 milljörðum á næsta ári
** Heildarfjöldi þess fólks sem flosnað hefur upp frá heimilum sínum víða um heim, einnig þeir sem umboð Flóttamannastofnunar nær ekki til, er áætlaður yfir 40 milljónir manns – eða um 0,6% af íbúafjölda jarðar. Nú eru fleiri á flótta undan hlýnun jarðar en stríðsátökum en hlýnun jarðar hefur meðal annars í för með sér uppskerubrest, útbreiðslu eyðimarka, hækkun sjávarmáls, fellibyli og bráðnun jökla. Þá er ótalið allt það fólk sem flytur til annarra landa til að öðlast betri lífskjör: yfir landamæri Mexíkó til Bandaríkjanna, frá fyrrum Austantjaldslöndum til betur stæðra ríkja Evrópu o.s.frv.
*** Ármann Jakobsson bendir á neyslu Íslendinga í þessu samhengi: „ Nýleg athugun leiddi í ljós að það þyrfti 14 jarðir til að standa undir neyslu mannkyns ef allur heimurinn væri eins og Íslendingar. Önnur nýleg athugun sýndi hvernig Íslendingar skáru sig úr meðal Norðurlandanna fyrir að hafa litla sem enga tilburði sýnt til að draga úr útblástri gróðurhúsalofttegunda seinustu 20 árin. Það er ástæða til að rifja upp að lífskjör á Íslandi eru ekki aðeins góð miðað við umheiminn heldur eru þau of góð: mannkynið allt getur hreinlega ekki leyft sér þau lífskjör sem Íslendingar njóta nú þegar … Eða trúa menn því kannski að við séu valin af æðri máttarvöldum til að vera elíta heimsins sem verðskuldar margfalt margfalt meiri veraldleg gæði en allir aðrir?“
Svo er það matvælavandinn, eins og segir í grein Ásdísar Hlakkar Theódórsdóttur: „Íbúum jarðar fjölgar stöðugt, en á sama tíma eru loftslagsbreytingar að gjörbreyta og sumsstaðar kollvarpa möguleikum til fæðuframleiðslu vegna þurrka og jarðvegseyðingar. Svo ör hefur fólksfjölgunin verið að á næstu 50 árum þarf að líkindum að framleiða meiri matvæli, en sem nemur matvælaframleiðslu síðustu hundruðir ára samanlagt, til þess eins að brauðfæða heimsbyggðina.“

Efnisorð: , , ,