þriðjudagur, nóvember 02, 2010

Fyrir hvern er leikhús sem „ögrar og tekur á samfélagsmeinum“?

Það er liðin tíð að ég reyni að sjá allar íslenskar myndir í bíó. Til þess eru þær alltof margar og misjafnar að gæðum. Afogtil fær einhver íslensk mynd svo jákvæða dóma að mig langar til að berjast útí náttmyrkrið og sjá hana í bíóhúsi og maula popp (hljóðlega) á meðan. Það á tildæmis við um Brim sem nú er verið að sýna en þó hef ég ekki látið verða af bíóferðinni ennþá. Ástæðan er sú að ég hef séð stiklur úr myndinni og heyrt lauslega um söguþráðinn, og það litla sem ég veit um myndina útfrá því er það að sagan gerist um borð í fiskiskipi þar sem kona ræður sig um borð og einhverjir óhugnalegir atburðir gerast. Og vegna þess að ég er tortryggin þá hef ég ekki viljað sjá myndina fyrr en ég veit meir.

Það hefur orðið æ meira áberandi í leikhúsi, eins og í bíói, undanfarin ár að hafa kynferðisofbeldi til sýnis fyrir áhorfendur og því má alveg búast við slíku í verki sem Brimi, sem fyrst var sett upp í leikhúsi. Nýleg leikhúsverk á fjölunum hér virðast meira og minna koma inná eða hreinlega snúast um kynferðisofbeldi sem konur eru beittar og finnst mér stundum eins og umræða undanfarinna áratuga um kynferðisofbeldi (sem feministar komu af stað til að aflétta skömminni og koma þolendum til hjálpar) hafi komið eins og himnasending fyrir hnípna leikritahöfunda sem fannst sem búið væri að margfjalla um öll möguleg þemu sem kæmust fyrir í einu leikriti. Sifjaspell og nauðganir (eða hótanir um slíkt og undirliggjandi ógnir þegar ekki er beinlínis látið til skarar skríða) virðast núorðið eiga að hressa uppá hvaða þvælu sem er jafnt og þegar meiriháttar þjóðfélagsádeilur eru á svið bornar.

Önnur skýring gæti verið sú að leikritshöfundarnir séu einhverskonar fulltrúar þeirrar kynslóðar sem hefur séð svo mikið ofbeldi í sjónvarpi að hún þurfi meiriháttar ofbeldi og ógeð til að finnast eitthvað varið í það sem ber fyrir augu og með því fylgi alger skortur á samkennd. Samt þykjast sumir þeirra örugglega vera að fjalla á gagnrýninn hátt um alvarlega atburði og jafnvel að þeir séu að gera áhorfendum einhvern greiða með því að troða þessu ógeði í andlitið á þeim. En samúðin virðist mér vera yfirskin til þess að skrifa texta sem sæmir klámmyndum og sjá konur niðurlægðar. Svo má hreinlega líta svo á að verið sé að gera sér slíka atburði að féþúfu.

Einhverjir leikritshöfundana eru konur og leikstjórarnir sömuleiðis og kannski eru þær sama marki brenndar en hugsanlega líta þær á slík verk sem einhverskonar geðhreinsun (e. catharsis) fyrir sig og aðrar konur. Og jafnvel getur verið að einhverjar konur meðal áhorfenda upplifi það þannig líka, meira segja þær sem sjálfar hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi (en eins og ég hef áður sagt þá upplifa ekki allar konur þannig áfall eins).

En þegar 1/3 allra kvenna verður fyrir kynferðisofbeldi — og eins og vís maður benti á þá hafa allar konur sem komnar eru um sjötugt orðið fyrir einhverskonar áreiti vegna kynferðis síns um ævina og því líklegt að flestallir kvenkyns leikhúsgestir þekki þetta á eigin skinni: hvern er þá verið að upplýsa? — þá er spurning hvort áhorfendum upp til hópa sé greiði gerður með því að setja svona verk á svið?

Konur eru jú meirihluti þeirra sem fer í leikhús eða um 2/3 leikhúsgesta (og sér myndlistarsýningar — konur halda uppi menningarlífi hér eins og í öðrum löndum) og hafi 1/3 meirihluta leikhúsgesta (nú bregst mér reikningskunnáttan) upplifað óþægilega atburði sem þær kæra sig kannski ekki um að vera minntar á þegar þær bregða undir sig betri fætinum og fara á menningarviðburð, hvað þá ef vart er hægt að fara á slíka viðburði yfirleitt án þess að eiga á hættu að vera sífellt minnt á það. Konur sem enn þjást af áfallastreituröskun (sem stundum hverfur aldrei) geta hreinlega lent í því að endurupplifa atburðinn inni í fullum sal leikhúsgesta.* Sjónvarpinu er þó hægt að slökkva á heima hjá sér en það sem fer fram á sviðinu í þrívídd er alltaf nálægara en það sem er á skjánum. Má þá ekki minnka áhersluna á slík verk á fjölum leikhúsa, eða að minnsta kosti vara sérstaklega við þeim í stað þess að auglýsa þau sem „ögrandi“ og segja að þau „taki á samfélagsmeini“?

Það er ákveðinn vandi leikhúsa að ungt fólk sækir ekki leikhús og því eldast gestirnir (og eru því sjötugar konur með mikla lífsreynslu og ekki alla góða að baki). Á ofbeldisfullt leikverk að trekkja að yngri kynslóðirnar og jafnvel hina sjaldséðu ungu karlmenn? Kannski er verið að láta reyna á hvort þeir fá kikk útúr því að sjá konum nauðgað á sviðinu, svona umfram klámáhorfið sem þeir dunda sér við yfir tölvunni flestum stundum. Sé tilgangur leikritshöfundanna að vekja áhorfendur til vitundar þá eru það allavega ekki konurnar í salnum sem þurfa á henni að halda, og það vekur varla hjá þeim neinar sérstakar spurningar heldur, aðeins vanlíðan. Þær eru þó talsvert stöðugri og áhugasamari kúnnahópur leikhúsanna en ungu karlmennirnir.

Sem miðaldra kona sem er nánast hætt að fara í leikhús (og nú einnig bíó) þrátt fyrir einlægan áhuga á slíkri menningarupplifun þá er ég fyrir mitt leyti orðin hundleið á því að þurfa að bíða eftir leikdómum og ráða svo í misjafnlega skýrt orðaðar lýsingar á því hvers er að vænta í leikritinu. Reyndar spyr ég líka fólk sem hefur farið á verkið, eins og í tilviki bíómyndarinnar Brims,** til þess að ég sé nú ekki að sitja undir einu ógeðinu enn. Þá kemur oft fyrir að sýningum er hætt og ég missi því af þeim.

Ein þeirra sýninga sem ég sembeturfer fór ekki á, var Rústað, sem sýnt var í Borgarleikhúsinu í febrúar í fyrra. Fyrirsögn leikdómsins um verkið var „Níðingsverk í Borgarleikhúsinu“ og þar sagði Páll Baldvin Baldvinsson þetta:

„Ofbeldið er hér nakið: við sjáum barnaníðing koma langþráðum vilja sínum fram á fórnarlambi, honum síðan nauðgað og byssuhlaupi er stungið í endaþarm hans og hann augnstunginn,*** kornabarn deyr úr hungri og er étið og lokamyndin er í handriti býsna dökk: unga stúlkan sem eina sakleysið í verkinu snýr aftur […] eftir ofbeldisfulla nauðgun utansviðs.“

Ég hefði hugsanlega slysast til að sjá Rústað ef Páll Baldvin hefði ekki kveðið svo skýrt uppúr með hverskonar verk var þar á ferðinni. Hann segir reyndar líka þetta um leikverk þessarar tegundar:
„Rústað varð strax hneykslunarhella og umdeilt. Það tilheyrði bylgju ögrandi og ofbeldisfullra verka. Mörg þeirra hafa sést hér. Hreyfing þessi varð til í kimum leikhúss Vesturlanda en náði aldrei fótfestu, líkast til vegna öfganna sem hún sýndi með „splatter effectum“, látlitlu ofbeldi og vonarsnauðri uppgjöf. [...] Á verkið erindi hingað nú?“

Í blaðinu mátti síðar lesa nánast hreykna smáklausu sem hljóðaði svona:
„Rústað, sem Borgarleikhúsið sýnir um þessar mundir, er með ofbeldisfyllri leikverkum sem hér hafa verið sett upp. Þar er boðið upp á misþyrmingar, nauðganir og eitthvað þaðan af verra og þykja Björn Thors og Ingvar E. Sigurðsson fara á kostum sem ofbeldismaðurinn og fórnarlambið. Áhorfendum finnst nokkuð óþægilegt að sjá hrottaskapinn í návígi og það bregst ekki að nokkrir áhorfendur yfirgefa salinn á hverri sýningu. Þeir sem hafa tekið verkið mest inn á sig hafa meira að segja farið ælandi út.“****

Ekki tíðkast greinilega hausatalning eða kynjagreining hjá blaðamanninum sem skrifaði þessa lýsingu en mér þykir líklegt að þeim 1/3 kvenna í salnum sem þolað höfðu kynferðisofbeldi í einhverri mynd hafi ekki liðið vel undir þessum senum hvort sem þær gengu útaf sýningunni eða ekki.

Er kannski stefnan að fæla konur frá því að sækja leikhús?

___
* Reyndar var mín allra fyrsta bloggfærsla um þetta efni, þaðeraðsegja hvernig það að lesa texta, horfa á bíómynd eða leikrit getur hrundið af stað áfallastreituröskun (PTSD).

** Spurningin sem ég lagði fyrir þau sem hugsanlega gætu sagt mér eitthvað um Brim var á þessa leið: „Ef þú veist hvað þetta svakalega er sem gerist í myndinni ertu þá til í að segja mér það því mig grunar að vegna þess að það er kona um borð í skipinu þá snúist málið annaðhvort um að henni sé nauðgað eða að henni sé hópnauðgað. Hvort er það?“ Svarið kom mér á óvart og er á þá lund að hugsanlega læt ég verða af því að sjá myndina á næstunni.

*** Ólíkt því sem margir kynnu að halda, þá finnst konum kynferðisofbeldi sem snýr að körlum ekki geðslegt og það stuðar þær (líklega flestar) jafn mikið og slíkt ofbeldi þegar kona er þolandinn.

**** Úrklippan mín með þessari klausu er ekki dagsett. Aðra ódagsetta úrklippu á ég með skrifum Jórunnar Tómasdóttir í menningarblaði Fréttablaðsins þar sem hún segir að efniviður Rústað sé svívirðilegur og ennfremur þetta: „Ég leyfi mér að halda því fram að sýning verksins á sviði Borgarleikhússins sé svívirðileg móðgun við leikhúsgesti. Ef listin felst í því að hrúga saman hránöktum ofbeldisatriðum pökkuðum inn í samtvinnuð klúr- og blótsyrði þá viðurkenni ég vanmátt minn til slíkrar listskynjunar.“ Hún segir einnig: „Leikverk Söru Kane er byggt upp af samþjöppuðu, harðsoðnu, hráu ofbeldi og hryllingi eins svívirðilegu og verst getur orðið. Textinn er uppvafinn orðahnykill verstu og svívirðislegustu klúr- og blótsyrða sem finnast í tungumálinu.“ Hún segir jafnframt: „Hinsvegar mætti spyrja í hvers konar heimi við búum sem hampar leikverki sem þessu. Leikverki sem þar sem ofbeldinu og hryllingnum er samþjappað að því er virðist án nokkurs tilgangs annars en sýna það sem hránaktast.“

Magnað er að sjá andsvar ungs karlmanns við pistli Jórunnar á vefsíðu DV (ég veit ekki hvort það birtist í prentútgáfu blaðsins). Hann virtist álíta það toppinn á tilverunni að konan í verkinu fyrirgefur kvalara sínum og leggur fram skáldsöguna Vansæmd sem endar á svipaðan hátt (bók sem ég hafði ekki geð á að lesa) sem sönnun þess að nauðganir og ofbeldi séu nauðsynlegt innlegg í söguþráð. Já stelpur, sama hvernig karlmenn fara með ykkur, þá á alltaf að bjóða fram hinn vangann eins og Jesús!

Efnisorð: , , , ,