sunnudagur, október 31, 2010

30. júní 1980

Ég man vel eftir því þegar Vigdís var kosin forseti. Ég var ekki nógu gömul til að kjósa sjálf en fylgdist með kosningabaráttunni af miklum áhuga og hélt með Vigdísi frá upphafi. Þegar allir forsetaframbjóðendurnir komu saman í sjónvarpssal fannst mér hún hafa alla yfirburði, en það fannst víst þeim sem kusu hina frambjóðendurna líka. Foreldrar mínir kusu einn karlanna og fannst lítið til Vigdísar koma, en aldrei kom neitt annað til greina hjá mér en að hún ætti að verða forseti.

Ég vakti svo alla nóttina meðan talið var úr kjörkössunum en úrslitin réðust ekki fyrr en undir morgun. Þá varð ég ofsaglöð. Eins og kom fram í heimildarmyndinni um kjör Vigdísar (sem ég sá í endursýningu nú fyrir stundu) þá var þetta fögur sumarnótt, og ég var svo uppveðruð að ég fór ein út í göngutúr árla morguns þegar ljóst var að Vigdís hafði verið kjörin og gekk um allan bæ í sæluvímu. Ég var ekki ein þeirra sem hyllti hana í garðinum við Aragötu, einfaldlega vegna þess að ég vissi ekki að það stæði til, en ávallt síðan þegar ég sé myndir frá þeim atburði, þá fæ ég tár í augun.

Jafnrétti náðist hvorki hér né annarstaðar í heiminum við kjör Vigdísar, ekki frekar en það hefur náðst núna þegar við höfum konu í stóli forsætisráðherra og eina konu sem hæstaréttardómara. Jafnrétti er ekki náð meðan konur eru bara stundum í æðstu embættum en allajafna sitji þar karlar og þeir séu í yfirgnæfandi meirihluta í viðskiptalífinu og fjölmiðlum. En í hvert sinn sem kona er þó kjörin í embætti (eða fær starf sem konur hafa ekki áður gegnt, sbr. bankastjóri) þá hverfa þær hugmyndir að konur geti ekki sinnt störfum sem karlar einir hafa gegnt fram að því.

Þó breytingar í átt til jafnrar stöðu kynjanna í íslensku samfélagi og í heiminum öllum gangi seint, þá ber að fagna hverjum áfanga. Ég fyllist enn fögnuði þegar ég minnist kjörs Vigdísar. Það var ákaflega gott skref í rétta átt.

Efnisorð: