fimmtudagur, nóvember 04, 2010

Þrefalt nei verður að fagnaðarlátum

Í dag fóru fram mótmæli á Austurvelli. Ég sá fréttir á netmiðlum fljótlega eftir að ljóst varð að mótmælin voru mjög fámenn og nennti því ekki að kveikja á sjónvarpsfréttum til að sjá umfjöllunina þar (er ekki hvorteðer alltaf handbolti á kvöldin og fréttir falla niður?). Fyrir rúmri viku voru önnur og stærri mótmæli á Arnarhóli, þau fengu talsverða umfjöllun en ekkert í samræmi við fjölda þátttakenda.

Eins og venjulega ber tölum ekki saman (í dag sögðu fjölmiðlar ýmist að um hundrað manns og allt uppí á fjórða hundrað hefðu verið á Austurvelli en á Arnarhóli voru samkvæmt þeim ýmist á milli 40 og 50 þúsund eða hátt í 60 þúsund) en ljóst er að hátt hlutfall vinnandi kvenna var þar saman komin — og var þó ekki sólskin og stillt veður í fagurlega föllnum snjó eins og tunnumótmælendur gátu notið í dag, heldur stormbeljandi svo vart var hægt að halda skiltum á lofti.

Konur, svona almennt höfðu því ærna afsökun fyrir að sleppa því að mæta niður í bæ. Það hafði reyndar þorri manna í dag líka því tilgangur mótmælanna í dag var að heimta stjórnarskipti án þess að til kosninga kæmi. Þeir sem hvöttu til mótmæla voru hrunvaldar, þingmenn þess þingflokks sem enginn kaus, fólk sem kunni ekki fótum sínum forráð í góðærisvímunni og vill að aðrir taki þátt í timburmönnum sínum og fólk sem hefur gullfiskaminni og trúir öllum hinum fyrrnefndu og ekki síst þeim sem plata það til mótmæla við gjaldþrotabú fyrirtækja sem rak í þrot löngu áður en bankarnir blotnuðu í brauðfæturna.

Reyndar gerði síðasttalda uppákoman það líklega að verkum að færri höfðu geð á að láta bendla sig við mótmæli dagsins, því eins og sjá mátti á jólapóstkortaveðrinu í Reykjavík í dag þá viðraði vel til útivistar. En fjöldi þeirra sem mótmælti náði þó ekki uppí fjölda atvinnulausra og gjaldþrota í Reykjavík svo ekki er hægt að kenna því um að atvinnurekendur hafi ekki gefið frí, svona eins og konurnar fengu í síðustu viku.

Konur gengu út klukkan 14:25 vegna þess að þá hafa þær þegar unnið fyrir launum sínum, slíkt er launahlutfall þeirra miðað við laun karla. Launamismuninum var mótmælt fyrst árið 1975 og enn er þörf á að benda á hann. En það var ekki eina málefni dagsins, yfirskriftin var „Konur gegn kynferðisofbeldi“. Konur gengu fylktu liði og héldu mótælafund þar sem við vorum í tugþúsundatali að mótmæla því að þriðja hver kona verður fyrir ofbeldi af hálfu karla. Þessu litu fjölmiðlar alveg framhjá, þeir eru enn fastir í að telja allt í krónum og aurum og nenna ekkert að sinna öðru. Á þetta allt saman og meira til bendir Þórdís Elva Þórhallsdóttir í fínni grein í Fréttablaðinu í dag.

„Þeim 50 þúsund konum sem söfnuðust saman í miðbæ Reykjavíkur í slagviðri var ekki skemmt yfir þeirri staðreynd að þær eru með 66% af heildartekjum karla og að þriðja hver þeirra verði fyrir ofbeldi á lífsleiðinni. Okkur var ekki hátíð í huga þegar við fordæmdum nauðganir og sifjaspell á sviði sem svignaði undan roki og rigningu. Stormurinn sem gekk yfir borgina jók enn á áhrifin og sannaði að fundargestir voru ekki í skemmtigöngu, heldur samankomnir vegna baráttumáls sem er nógu mikilvægt til að standa af sér veður og vind.“


Baráttan kristallaðist svo í ræðu Sigrúnar Pálínu á fundinum, þessari talskonu þeirra fjölmörgu kvenna sem urðu fyrir barðinu á nauðgaranum sem biskupinn fyrrverandi reyndist vera. Ræða hennar endaði á þessum orðum sem við allar tókum undir með þreföldu nei-öskri.

„Til þín sem hefur hugsað þér að misnota barn eða fullorðinn í dag. Tímarnir eru breyttir. Þú getur ekki lengur verið óhultur i skjóli þöggunar.

Ég ætla ekki einu sinni að reyna að segja þér hvað þú gerir og hvaða afleiðingar það hefur fyrir fórnarlamb þitt, því að þér er nákvæmlega sama. Í sumum tilfellum trúir þú því líka sjálfur að börnin vilji þig.

Í dag segjum við frá verknaði þínum. Ef við getum það ekki vegna aldurs eða aðstæðna þá gerum við það þegar við erum orðin fullorðin.

Mundu bara að þú verður aldrei óhult/ur, jafnvel þó að þú sért dáin/n.

Við vitum hver þú ert, því getur þú aldrei gleymt og við gleymum þér aldrei.“

Að lokum vil ég biðja ykkur að hrópa með okkur þrefalt „Nei!“ – gegn kynferðislegu ofbeldi og öðru ofbeldi. Við hrópum það svo hátt að allur heimurinn heyri!“


Í sjónvarpsfréttunum var bara sýnt þegar við klöppuðum fyrir ræðunni en nei-öskrin okkar heyrðust ekki.

Efnisorð: , , , , ,