fimmtudagur, nóvember 11, 2010

Karlveldið þéttir raðirnar

Tæpum þremur vikum eftir að ríflega 40 þúsund konur stóðu á Arnarhóli og mótmæltu kynferðisofbeldi er Björgvini Björgvinssyni boðið að gerast aftur yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar. Skýringin er sögð sú að það sé vegna þess að hann hafi „ætíð notið fyllsta trausts yfirstjórnar lögreglunnar“ og hann hafi „byggt upp starfsemi kynferðisbrotadeildar LRH frá því að hún var sett á laggirnar 1. janúar 2007 með afar góðum árangri.“ Árangurinn er sá að örfá mál sleppa úr klóm kynferðisbrotadeildarinnar og rata fyrir dómstóla. Löggurnar, undir stjórn Björgvins, hafa dundað sér við að telja kjarkinn úr brotaþolum og segja þeim að „líta í eigin barm“, semsagt allt bara konunum sjálfum að kenna.

En löggurnar svona voða glaðar með þennan árangur Bjöggans og að hann skuli hafa sagt upphátt við fjölmiðla það sem er hvorteðer skoðun þeirra allra. Ríkissaksóknari enda búinn að taka í sama streng og allir helstu kallarnir sem að málum koma greinilega á sama máli úr því að lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins lýsir yfir stuðningi við Björgvin og yfirlýsingar hans með því að bjóða honum aftur vinnu (en eins og kunnugt er þá rak Ragna þáverandi dómsmálaráðherra Björgvin þó hann fengi að láta eins og hann hafi viljað víkja).

Það verður geðslegt fyrir konur að eiga samskipti við kynferðisbrotadeild lögreglunnar ef Björgvin sest þar aftur í stól yfirmanns. Viðhorfin fyrirfram skýr: „Þú ert að ljúga kelling og varst þaraðauki full. Vertu úti.“

Afsakið meðan ég froðufelli.

___
Viðbót: Á sömu síðu og Fréttablaðið greindi frá fundi dómsmála- og mannréttindaráðherra þar sem meðal annars fulltrúum ríkissaksóknaraembættis var boðið, er birt yfirlýsing sjö saksóknara og aðstoðarsaksóknara hjá embætti Ríkissaksóknara. Þar sýna þeir stuðning við Valtý og það sem hann gubbaði útúr sér yfir þolendur nauðgana. Mikið var það nú sætt af þeim.
Þetta er úr fréttinni um yfirlýsinguna: „Segja þeir meðferð nauðgunarmála vandaða og í fullu samræmi við gildandi lög. Þeir segja að þótt spjótin hafi einkum beinst að Valtý sé mesti þunginn í afgreiðslu nauðgunarmála hjá þeim.
„Um leið og við lýsum því yfir að við erum að sjálfsögðu viljug til að skoða alla málefnalega og rökstudda gagnrýni á störf okkar í því skyni að við getum gert betur, þá lýsum við því hér með yfir, með hliðsjón af ofangreindu, að Valtýr Sigurðsson nýtur fulls trausts okkar í starfi sínu sem ríkissaksóknari," segir í yfirlýsingunni.“ Verst að þolendur kynferðisbrota skuli ekki getað tekið undir þetta með þeim.

Efnisorð: , , , ,