mánudagur, nóvember 15, 2010

Ekki er allur málstaður jafn góður og því styð ég ekki öll mótmæli

Ármann Jakobsson, sem í Silfri Egils var réttilega sagður vera beittasti stjórnmálabloggarinn, birtir athyglisverðan pistil í dag sem endranær. Hann fjallar þar um mótmælin sem leiddu til falls ríkisstjórnar Geirs Haarde og ber þau saman við tunnumótmælin í síðasta mánuði og útskýrir hver munurinn á þeim sé.

Ármann segir meðal annars þetta:
„Eins fagna ég því þegar hlustað er á mótmælendur sem hafa góðan málstað en öðru máli gegnir vitaskuld þegar málstaðurinn er verri. Þeir sem halda að allir sem styðja mótmæli af góðu tilefni verði samræmisins vegna að styðja öll mótmæli ættu helst að setjast aftur á skólabekk, á grunnskólastigi.“


Mér hefur einmitt fundist furðulegt hvernig fólk hefur talað eins og öll mótmæli séu jafngild. Ég færi til dæmis seint að mæla því bót að mótmælt yrði veru útlendinga á Íslandi eða teldi mér skylt að mótmæla því að Hells Angels fái ekki að starfa óáreittir. Þvílíkt rugl að með því að styðja ein mótmæli verði maður að hrópa húrra fyrir þeim öllum og helst mæta með lurk.

Ég „studdi“ vörubílstjóramótmælin vorið 2008 að því leyti að mér fannst frábært að einhver (sem reyndist vera Sturla, ekki gat mig grunað framhaldið) væri loksins farinn að kveikja á því að fólk ætti ekki alltaf að sitja heima og tauta í barminn væri það ósátt. Hinsvegar fannst mér frekar fáránlegt að mótmæla hvíldartíma bílstjóra sem var eitt af baráttumálum bílstjóranna. Þannig að mér fannst málstaðurinn ekkert endilega frábær og færu þau fram í dag myndi ég bara ekkert styðja vörubílstjóramótmælin en þau mörkuðu ákveðin þáttaskil sem ég fagnaði.*

Ég leyfi mér hiklaust að lýsa frati á sum mótmæli, fyrirfram jafnt sem eftirá.

__
* Áður hafði auðvitað Saving Iceland mótmælt en þau fengu allltaf á sig áveðinn stimpil sem atvinnumótmælendur, iðjuleysingjar, útlendingar eða eitthvað þaðan af verra sem „almenningur“ lét fara í taugarnar á sér og vildi því ekki feta í fótspor þeirra. Sturla og co sem fulltrúar vinnandi stéttar hífðu mótmæli inná almenningsplanið, sem mér finnst jákvætt.

Efnisorð: , , ,