laugardagur, nóvember 13, 2010

Konur treysta ekki kerfinu og því þarf að senda kerfiskalla í endurmenntun

Í fyrradag þegar ég las að Björgvin Björgvinsson væri sérstaklega boðinn velkominn aftur til starfa sem yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar* þá velti ég fyrir mér að senda Ögmundi Jónassyni dómsmála- og mannréttindaráðherra tölvubréf eða jafnvel hringja í ráðuneytið og fá að tala við hann beint, og krefjast þess (til vara: sárbæna) að hann tæki í taumana og sæi til þess að konum sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi væri ekki sýnd þessi fádæma lítilsvirðing. Því það er ekkert annað sem yfirlýsingar Björgvins og Valtýs Sigurðssonar ríkissaksóknara eru og það að þeir haldi bara áfram að vera æðstu menn þessa málaflokks er til háborinnar skammar.

Nema hvað, ég var í fullu starfi við að ná niður blóðþrýstingnum áður en ég legði til atlögu við Ögmund þegar ég sá í gær hefði verið haldinn fundur — að frumkvæði Ögmundar — með fulltrúum frá lögreglu, ríkissaksóknara, dómstólum, Stígamótum, Neyðarmóttöku vegna nauðgana, Jafnréttisstofu, Femínistafélagi Íslands, Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum, Kvennaathvarfinu, V-dagssamtökunum og öllum þingflokkum.

„Ögmundur Jónasson segir fundinn hafa verið gagnlegan og skoðanir manna ekki ýkja skiptar. „Ég held að kveikjan sé fyrst og fremst sú staðreynd að það eru ákveðnar vísbendingar um að fólk sem verður fyrir kynferðisofbeldi beri ekki nægilegt traust til kerfisins," segir ráðherrann.“

Án þess að það hvarfli að mér að löggur og saksóknarar hafi orðið fyrir hugljómun og verði allir aðrir í hugsunum og viðmóti eftir þennan fund, þá er mér samt stórlega létt. Bæði vegna þess að það þarf greinilega ekki að segja dómsmála- og mannréttindaráðherra það tvisvar að honum komi málið við og hann verði að bregðast við því, og vegna þess að þarna virðist að sem fulltrúum flestra ef ekki allra þeirra sem málið kemur við hafa verið boðið til þátttöku.

Hrafnhildur S. Gunnarsdóttir, ráðskona Femínistafélagsins, segir að „Upp úr umræðunum komu alls kyns tillögur um úrbætur, til dæmis að það væri mikilvægt að halda úti fræðslu fyrir dómara og aðra sem vinna að málunum svo að þolendur kynferðisafbrota mæti ekki skilningsleysi eða fordómum. En svo er líka ljóst að það skortir þekkingu á málaflokknum og að það þarf frekari rannsókna við."

Það er reyndar alveg stórfurðulegt að eftir alla umræðu síðustu tuttugu ára séu dómarar og aðrir sem koma að kynferðisbrotamálum hjá lögreglu og dómskerfinu séu enn fávísir og fullir fordóma. Það væri nú skemmtilegt ef þeir reyndu að fylgja okkur hinum inn í 21. öldina í stað þess að hanga á miðaldaviðhorfum sínum eins og hundar á roði.

___
* Var enginn ráðinn í stöðuna í millitíðinni eða var kynferðisbrotadeildin yfirmannslaus þar til Björgvin kom aftur? Stóð kannski aldrei annað til?

Efnisorð: , , , , ,