fimmtudagur, nóvember 25, 2010

Sjö ábendingar til kvenna um rétta hegðun

Ekkert benti til þess í greininni sem ég fjallaði um í síðustu bloggfærslu að um framhald yrði að ræða (þá hefði ég nú beðið augnablik og tekið báðar fyrir í einu). En í dag birtist semsagt seinnihluti greinarinnar eftir Sigríði J Hjaltested aðstoðarsaksóknara í Fréttablaðinu. Sú er öllu verri en hin fyrri. Öll áhersla er lögð á að konur eigi að vera skýrari í svörum, passa sig betur, ekki gera þetta og ekki gera hitt. Skilaboðin til karla eru falin í þessu:
„Berðu virðingu fyrir sjálfum þér og öðrum. Ekki samþykkja það sem þú vilt ekki gera og ekki þrýsta á einhvern annan til þess að gera eitthvað sem þú telur hann ekki vilja gera. Sértu í vafa, slepptu því.“
og þessu:
„Ekki taka þátt í neinu sem þú sérð að er rangt. Taktu afstöðu með þeim sem hallar á.“
Á móti þessum tveimur ráðleggingum til karla* fá konur sjö ábendingar um hvernig þær eiga að hegða sér. Það vantar bara að þeim sé sagt að vera ekki í stuttum pilsum og vera ekki alltaf svona miklar druslur. En það eru ekki ungar stelpur sem eru vandamálið og það er ekki nóg að þær læri að „fara vel með áfengi“ heldur þurfa karlmenn á öllum aldri að hætta að líta á drukkið kvenfólk sem auðvelda bráð.

Ég bendi aftur á, að nauðganir eru framdar af fleirum en ungum karlmönnum, þó þeir séu sannarlega afkastamiklir á þessu sviði. Jafnframt er konum á öllum aldri nauðgað; við erum ekkert öruggar um leið og þrítugsaldrinum sleppir. Þessvegna er furðulegt að orðum aðstoðarsaksóknarans sé eingöngu beint að ungmennum. En, jújú, það á auðvitað líka að tala um og við unga fólkið. Að því leyti eiga þessi orð Sigríðar ágætlega við:
„Það þarf því að brýna fyrir þeim í hverju eðlileg samskipti séu fólgin með fræðslu sem þarf að vera viðvarandi. Á ég þá við fræðslu um dagleg samskipti kynjanna, gagnkvæma virðingu og kynferðisleg samskipti. Í því sambandi sé lögð megináhersla á gagnkvæman vilja og samþykki. Fróðlegt væri að gera skoðanakannanir á meðal ungmenna á því hvað þau telja vera „eðlilegt" í dag. Það segir sig nefnilega sjálft að hafi þau skakka mynd af því sem er eðlilegt nú er það líklegra en ekki til fylgja þeim út þeirra fullorðinsár.“


Það er nú einmitt stóra meinið: fullorðnir karlmenn eru ekki með skárri viðhorf til kvenna en strákarnir. Og eins og ég benti á í lok síðustu færslu: Því þarf að breyta.

___
* Fyrir margt löngu birti ég 40 ráðleggingar til ungra karlmanna um hvernig þeir ættu ekki að hegða sér í samskiptum við stelpur. Og auðvitað eiga þær við um fullorðna karlmenn líka. (Ég samdi þær reyndar ekki sjálf heldur þýddi úr útlensku þó ég hafi ekki tekið það fram á sínum tíma).

Efnisorð: , , , ,